Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna Múlakaffis og Dalaróss við Brúnegg. Fyrirtækið undirrituðu kaupsamning í desember. Hægt er að sjá það í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins . Hins vegar segir í frétt Ríkisútvarpsins að kaupin hafi ekki gengið eftir.

Það staðfestir Jón Scheving Thorsteinsson, framkvæmdastjóri Arev, sem sá um sölu Brúneggja. Hann gat þó ekki gefið nánari útskýringar um hvers vegna salan gekk ekki í gegn. Formlegt söluferli á Brúneggjum hófst þann 12. desember hófst 2016 og sá Arev verðbréfafyrirtæki um söluna. Kaupsamningur milli seljenda og kaupenda var undirritaður þann 28. desember 2016.

Rekstrargrundvöllur brostinn

„Í  máli  þessu  er  um  að  ræða  fyrirtæki  sem  varð  fyrir  miklum  ímyndarlegum  skaða  sem  leiddi til þess að allar helstu dagvöruverslanir landsins lýstu því opinberlega  yfir að þær  væru hættar viðskiptum við fyrirtækið. Þá lýsti keppinautur fyrirtækisins því einnig yfir að  hann væri hættur að kaupa af fyrirtækinu egg, sem hafði verið gert áður. Má af því leiða  að rekstrargrundvöllur Brúneggja, í núverandi mynd, sé brostinn,“ er meðal annars tekið fram í úrskurði Samkeppniseftirlitsins.

Einnig er tekið fram að ekkert sem kom fram í rannsókninni hafi bent til þess að samrunaaðilarnir hlytu markaðsráðandi stöðu á neinum markaði málsins eða að samkeppni myndi raskast.