Úr viðtali Viðskiptablaðsins við Lee Buchheit:

Buchheit hefur frá 1982 starfað fyrir ríkisstjórnir Mexíkó, Rússlands, Nígeríu og Írak svo dæmi séu nefnd. „Stór hluti af starfinu felst í hreinskilni sagt að halda í höndina á ríkisstjórnum og leiða þær í gegnum mestu erfiðleikana,“ segir hann. Hafandi sinnt þessu starfi öll fullorðinsárin hefur eitt og annað rekið á fjörur hans.

„Árið 2004 hafði ríkisstjórn Íraks, með Saddam Hussein við stjórnvölinn, safnað upp ógreiddum skuldum sem námu um milljarði Bandaríkjadala. Megnið af fjárhæðinni var fengið að láni frá öðrum ríkjum. Í slíkum að- stæðum fara samningaviðræður um endurskipulagningu fram fyrir svokölluðum Parísarklúbbi (e. Paris Club). Ríkisstjórn Íraks og Bandaríkjastjórn vildu fá afskrifaðar svo til allar skuldirnar. Þrjú ríki mótmæltu því hins vegar harðlega. Það voru Rússar, Frakkar og Þjóðverjar og fyrir vikið voru samningaviðræðurnar frekar erfiðar.“

„Á ákveðnum tímapunkti sendi ég skeyti á ríkissjóð Bandaríkjanna. Í skeytinu stóð: Ég er með hugmynd. Við segjum við Rússa að við gefum þeim Alaska aftur.“

Var þér alvara?

„Nei, alls ekki!“ segir Buchheit og hlær. „Ég bætti við: „Við segjum Frökkum síðan að við gefum þeim aftur landið sem við keyptum í Louisiana-kaupunum, sem er hér um bil allt landsvæði vestan Mississippi. Síðan segjum við Þjóðverjum að við kaupum öll Volkswagen.“

Félagar mínir hjá ríkissjóði svöruðu mér daginn eftir: „Lee, þetta er fáránlegasta hugmynd sem þú hefur nokkurn tímann stungið upp á! Hvernig dettur þér í hug að Bandaríkjamenn vilji keyra um á Volkswagen?“ Hann rekur upp hláturroku.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .