Ekki var stefnt að því að selja Bílanaust þegar ákveðið var að skilja fyrirtækið frá olíuverslun N1 í fyrravetur, að sögn Eggerts Benedikts Guðmundssonar, forstjóra N1. Bílanaust var tekið út úr N1 við uppstokkun á rekstri fyrirtækisins í fyrravetur og varð sjálfstætt fyrirtæki í byrjun þessa árs. Eggert segir í samtali við vb.is fjárfesta hafa fljótlega eftir uppstokkunina á N1 viðrað áhuga á að kaupa fyrirtækið og viðræður farið í gang. Eins og fram kom á vb.is fyrr í dag standa yfir viðræður um sölu á Bílanausti. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hverjir fjárfestarnir eru.

Bílanaust var stofnað árið 1962 og fagnaði hálfrar aldar afmæli í fyrra. Það rekur sjö verslanir ásamt þjónustuverkstæði í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Keflavík, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi.

Tekið yfir af kröfuhöfum

Bílanaust var sjálfstætt fyrirtæki á árum áður og voru eigendur þess meðal annarra Benedikt Sveinsson, sem löngum hefur verið kenndur við tryggingafélagið Sjóvá-Almennar, og Einar Sveinsson. Í byrjun árs 2006 keyptu félag Benedikts og eigendur fyrirtækisins ásamt öðrum fjárfestum allt hlutafé í olíufélaginu Esso og sameinuðust félögin undir móðurfélaginu BNT. Forstjóri Bílanausts á þeim tíma var Hermann Guðmundsson. Hann tók við sameinuðu fyrirtæki sem breytti um nafn í april ári eftir kaupin og varð að N1.

Í apríl árið 2011, fjórum árum eftir sameiningu Esso og Bílanausts var komist að samkomulagi um að lánardrottnar N1, þ.e. Arion banki, Íslandsbanki og skuldabréfaeigendur tækju eignarhaldið og reksturinn yfir af fyrr eigendum. Eigið fé BNT, móðurfélags N1 og fasteignafélagsins Umtaks, sem var í eigu N1, hafði þá verið neikvætt um nokkurt skeið. Skuldum var í kjölfarið breytt í hlutafé. Síðar keypti Framtakssjóðurinn hlut Arion banka í N1. Ný stjórn tók við rekstrinum og í fyrrasumar svo forstjóranum Hermanni Guðmundssyni sagt upp. Eggert Benedikt Guðmundsson, þá forstjóri HB Granda, var ráðinn í hans stað og var ráðist í að breyta rekstrinum, s.s. með því að skilja Bílanaust frá olíuverslun N1.

Framtakssjóður Íslands á 45% hlut í N1 og Bílanausti í dag en Íslandsbanki  25%, Lífeyrissjóður verzlunarmanna 10% en skuldabréfaeigendur um 20%.