Þingkonurnar Ólína Þorvarðardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem báðar eru þingmenn NV-kjördæmis, ætluðu til Þórshafnar í Færeyjum í fyrradag en enduðu í Haugasundi í Noregi.

Frá þessu er greint á vef Bæjarins besta (BB) en þær voru, ásamt þeim Björgvini G. Sigurðssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni á leið til þátttöku á fundi Vestnorræna ráðsins.

„Í stað þess að lenda mjúklega í Þórshöfn eins og gert var ráð fyrir, var tilkynnt að ekki væri hægt að lenda í Þórshöfn vegna veðurs, einungis fimm mínútum áður en áætlaður flugtími var liðinn,“ segir í frétt BB.

Þá kemur fram að þær hafi stefnt að því að komast til Færeyja í gær en ekki fylgir sögunni hvort það hafi tekist.