Við erum í fyrsta skipti núna að sjá sætanýtingu sem við teljum eðlilega eftir alla þessa þrautagöngu í Covid,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í samtali við Viðskiptablaðið. Play tilkynnti í morgun að flugfélagið hafi flutt 36.669 farþega í aprílmánuði sem er 55% aukning frá því í mars. Sætanýting jókst einnig úr 66,9% í 72,4% á milli mánaða.

Flugfélagið hóf áætlunarflug til Bandaríkjanna þann 20. apríl síðastliðinn þegar flogið var til Baltimore/Washington International-flugvallarins. Play hefur flug til Boston síðar í vikunni og til New York í næsta mánuði. Birgir segir að Bandaríkjaflugið hafi byrjað gífurlega vel og að það hafi jákvæð áhrif á flugleiðir félagsins í Evrópu.

„Tengiflugsleiðakerfi er forsendan fyrir því að reka flugfélag á Íslandi og það í raun styrkur fyrir okkur að hafa þessa landlegu. Við erum farin að sjá stóran hluta og jafnvel meirihluta af daglegri sölu koma frá tengifarþegum.“

Gríðarleg eftirspurn eftir sólinni

Spurður hvort að páskarnir hafi verið annasamasta tímabil sem Play hafi gengið í gegnum, tekur Birgir undir það. Flugvélar á leið til sólaráfangastaði hafi verið „alveg pakkaðar“. Play hefur lagt mikla áherslu á flug til Spánar og flýgur nú til Madrídar, Barcelona, Alicante, Malaga, Tenerífe, Kanaríeyja, og Mallorca.

„Þetta er strategískt markmið hjá okkur að vera mjög leiðandi og gildandi á þessum Suður-Spánar markaði. Við ætlum að eiga þann markað. Við sjáum í bókunum fram á sumarið að það er gríðarleg eftirspurn eftir sólinni. Íslendingar eru alveg búnir að fá nóg af því að hanga heima.“

Birgir segist gera ráð fyrir góðu sumri fyrir íslenska ferðaþjónustu og bindur vonir við að ferðaþjónustufyrirtæki búi bráðlega við eðlilegt rekstrarumhverfi á ný.

„Það eina sem maður hefur áhyggjur af er að ferðaþjónustan nái að halda í við eftirspurnina af því að áhuginn er gríðarlegur. Ég held við sem land þurfum að leggja hönd á plóginn til þess ná inn þessum gjaldeyri og ferðamönnum.“

Þurfa ekki að sækja nýtt fjármagn

Play sagðist um miðjan marsmánuð gera ráð fyrir rekstrarhagnaði á seinni hluta ársins. Birgir segist hafa fengið margir fyrirspurnir um hvort þessar áætlanir muni standast.

„Við sjáum enn þá fram á jákvæðan rekstrarhagnað á seinni hluta ársins. Við erum með mjög sterka CASK-stöðu, sætanýting er að aukast og bókanir eru gríðarlega góðar. Við teljum ekki þörf á að sækja hlutafé eins og staðan er í dag.“

Birgir bætir við að einingarkostnaður (CASK) félagsins hafi lækkað töluvert. Félagið stefni áfram að því að ná einingakostnaði niður í 4 bandarísk sent á kílómetra en þá verði Play orðið mjög samkeppnishæft við önnur lággjaldaflugfélög.

Spurður um áhrif eldsneytisverðshækkana segir Birgir að það hafi vissulega áhrif á reksturinn. Hins vegar séu allir á markaðnum að kljást við þessar hækkanir sem leiðir til þess að flugfargjöld á markaðnum hækki almennt.

„Allir eru að koma út úr Covid og það er enginn með einhverjar alvöru eldsneytisvarnir. Það sem gerist er að markaðsverðið hækkar. Þetta rúllar bara út í verðlagið eins og það verður að gerast. Þetta eru það miklar verðhækkanir, tugir prósenta. Það er engin ábyrgð í fyrirtækjarekstri að taka það á kassann.“

Afrek að byggja félagið upp á svo stuttum tíma

Spurður nánar um lækkun einingakostnaðarins segir Birgir að það skýrist að stórum hluta af bættri sætanýtingu. Einnig hafi stækkun flotans í för með sér að innviðir nýtist betur.

„Við höfum verið með of fáar flugvélar. Yfirbyggingin og annað styður við miklu fleiri flugvélar. Um leið og tekjurnar aukast, þá nýtist öll yfirbyggingin og innviðirnir betur. Þess vegna höfum við verið að leggja áherslu á það að flýta okkur upp í þessar 6-8 flugvélar. Þá erum við farin að nýta fasta kostnaðinn eins og á að gera. Við verðum komin með sex vélar í júní og þá er hægt verður hægt að horfa á þetta sem samanburðarhæfan rekstur við eitthvað annað.“

Birgir segir að það hafi verið stórt og erfitt verkefni að koma á fót flugfélagi eins og Play á svo stuttum tíma en jómfrúarflug félagsins var í lok júní 2021. Hann nefnir sérstaklega að það hafi verið krefjandi að koma upp stafrænum innviðum á svo skömmum tíma.

„Að gera þetta á svona stuttum tíma er bara afrek hjá fólkinu hérna, svo ég segi það bara hreint út. Flugfélög hafa verið að byggja þetta upp á mörgum árum eða áratugum en við erum að ná að gera þetta á rétt rúmu ári.“