Friðjón Rúnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Virðingar.
Friðjón Rúnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Virðingar.

Ekki er búið að taka ákvörðun um það hvort segja þarf upp starfsfólki við sameiningu Auðar Capital og Virðingar. Hjá Auði Capital vinna 26 en 20 hjá Virðingu. Stefnt er að því að fyrirtækin sameinist um næstu áramót, jafnvel í nóvember. Friðjón Rúnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Virðingar, segir í samtali við VB.is helst horft til þess að við sameiningu muni margs konar kostnaður lækka um helming, svo sem leyfisgjöld og kostnaður við endurskoðun auk annarra þátta.

Friðjón segir viðræður hafa staðið yfir í um þrjá mánuði og búið að ræða um skiptahlutföll en gengið er út frá því að sameinað fyrirtæki verði í um jafnri eigu. Sjálfur á Friðjón 11,5% hlut í Virðingu.

Verður stærsta fyrirtæki landsins

„Þetta er sameining til sóknar enda stefna félaganna mjög svipuð,“ segir hann og bendir á að heildareignir í stýringu beggja félaga verði allt að 100 milljarðar króna og heildareignir í fjárvörslu allt að 180 milljarðar. Hvorki er stefnt að því að sækja um viðskipta- eða fjárfestingarbankaleyfi hjá sameinuðu fyrirtæki.

„Stefnan byggist á því að vera sjálfstæð og óháð öðrum fjármálastofnunum og vera ekki í stöðutökum eða bjóða upp á gíruð viðskipti,“ segir hann og bendir á að eftir sameiningu MP Banka og Íslenskra verðbréfa muni sameinað fyrirtækið Auðar Capital og Virðingar verða stærsta sjálfstæða verðbréfafyrirtæki landsins.