Ráðleggingar erlendra rannsakenda á sviði ríkisaðstoðar eru eindregið á þá leið að ríki framkvæmi kostnaðar-ábatagreiningu áður en ákveðið er að veita hvers konar ívilnanir. Í riti OECD, Policy Framework for Investment: A Review of Good Practices, sem fjallar um bestu framkvæmd í löggjöf tengdri fjárfestingu, segir til að mynda: „Til að meðferð á skattfé sé forsvaranleg ætti að meta ívilnanir til nýfjárfestinga áður en er ráðist er í þær og ef af verður, ætti að meta þær reglulega til að sjá hvort þær standist enn kostnaðar-ábatagreiningu.“ Þetta kemur einnig fram í ráðleggingum AGS.

Í frumvarpi til laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, sem var lagt fram á Alþingi þann 9. september 2014, er ekki berum orðum gert ráð fyrir að slík greining fari fram. Í 12. gr. frumvarpsins kemur hins vegar fram að „Ívilnanir skulu aðeins boðnar umsækjanda ef útreikningar gefa með skýrum hætti til kynna að fyrirhuguð fjárfesting hafi í för með sér jákvæð áhrif á þróun byggðar jafnt til lengri sem skemmri tíma.“ Þá er gert að skilyrði að umsækjandi leggi fram rekstrar- og viðskiptaáætlun auk þess sem ráðherra er heimilt að óska mats sérfróðs aðila á fjárfestingarverkefninu og arðsemi þess.

Viðskiptablaðið óskaði eftir því við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að fá nánari upplýsingar um kostnaðar-ábatagreiningu einhvers af þeim fjárfestingarsamningum sem hafi verið gerðir vegna nýfjárfestinga undanfarin ár. Þau svör bárust að ráðuneytið væri bundið trúnaði um þau gögn þar sem um viðkvæmar viðskiptaupplýsingar væri að ræða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .