*

sunnudagur, 23. febrúar 2020
Erlent 15. janúar 2017 16:48

Ættu að fylgja lögum Asimov

Evrópuþingið íhugar heildstæða lagasetningu um vélmenni og róbóta, meðal annars skattlagningu og að hægt sé að slökkva á þeim í neyð.

Ritstjórn
epa

Nefn Evrópuþingsins hefur sett fram tillögur sínar um heildstæða löggjöf um framleiðslu vélmenna og róbóta sem innihalda meðal annars skyldu um að hægt sé að slökkva á þeim í nauð og að þeir hlýti grunnreglum úr vísindaskáldsögum Isaac Asimov´s.

Í kjölfarið fer málið til framkvæmdastjórnarinnar sem ein getur mælt fyrir um lagasetningu í Evrópusambandinu, að því er fram kemur í frétt CNN.

,,Sífellt fleiri hlutar okkar daglega lífs verða fyrir áhrifum af róbótatækni," sagði Mady Delvaux, einn meðlima evrópuþingsins sem lagði fram tillögurnar. 

,,Til þess að tryggja að vélmenni séu og muni áfram vera í þjónustu manna, verðum við að byggja upp heildstætt evrópskt regluverk um málið hið bráðasta."

Slökkvarar til nota í neyð

Helstu tillögur nefndarinnar eru þær að sett verði heildstætt regluverk sem tryggi að verkfræðingar hafi leiðbeiningar um hvernig hanna skuli öruggar vélar sem uppfylli siðferðislegar kröfur.

Sem dæmi þá ættu þeir að innihalda slökkvara svo hægt sé að slökkva á þeim í neyð. Jafnframt skulu þeir tryggja að hægt sé að endurforrita þá ef þeir virka ekki eins og til var ætlast.

Vélmennalög Isaac Asimov

Tillagan gerir einnig ráð fyrir að hönnuðir, framleiðendur og stjórnendur róbóta skuli láta hin svokölluðu vélmennalög sem vísindaskáldsöguhöfundurinn Isaac Asimov lýsti vera leiðbeinandi fyrir vélmenni og róbóta.

Samkvæmt lögum Asimov mega vélmenni aldrei skaða eða meiða fólk og þeir munu alltaf þurfa að hlýta fyrirskipunum skapara síns. Einnig skulu þeir varðveita eigin tilvist, nema það valdi mönnum skaða.

Verða að vera auðþekkjanleg

Tillögurnar gera einnig ráð fyrir að vélmenni verði alltaf að vera hægt að þekkja sem slík, svo að fólk myndi ekki tilfinningabönd við þau.

,,Þú verður alltaf að segja fólki að róbóti sé ekki manneskja og hann verði aldrei maður," sagði Delvaux. ,,Þú mát aldrei hugsa að vélmenni sé manneskja og að hann þig."

Nefnir tillagan sem dæmi að fólk sem sé í umsjón umönnunar róbóta geti myndað tilfinningatengsl við þá.

Tryggingar, skattar og borgaralaun

Jafnframt gera tillögurnar ráð fyrir skyldutryggingum, líkt og á við um bíla, sem tryggðu að framleiðendur og eigendur yrðu að tryggja sig gagnvart skaða sem róbótar gætu valdið. 

Einnig skoðar tillagan hvort veita ætti vélmennum stöðu ,,rafrænnar persónu" í þeim tilvikum að vélmennið geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir og verið í samskiptum við manneskjur án þess að lúta beinni stjórn. Það myndi gefa þeim ákveðin réttindi og skyldur, til að mynda að greiða fyrir allan skaða sem þeir myndu valda.

Loks veltir tillagan því upp ef róbótar færu að koma í stað vinnandi fólks í stórum stíl að framkvæmdastjórnin ætti þá að skattleggja eigendur þeirra. Jafnframt ættu aðildarþjóðir sambandsins að íhuga borgaralaun til að draga úr áhrifum tapaðra starfa.