*

mánudagur, 8. mars 2021
Innlent 23. janúar 2021 13:07

Ríkið ætti að selja báða bankana

„Ef þú vilt finna rangan tíma eru allir tímar rangir,“ segir Jón Daníelsson, um hvort rétt sé að ríkið selji hlut í Íslandsbanka.

Ingvar Haraldsson
Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics og forstöðumaður rannsóknarseturs um kerfisáhættu í fjármálakerfinu.

Alþingi hefur nú til skoðunar tillögu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að selja allt að 25% hlut í Íslandsbanka í vor í opnu útboði samhliða skráningu bankans á markað ef rétt verð fæst. Íslenska ríkið mun áfram eiga 75% hlut í bankanum ef af verður. Innan úr verkalýðshreyfingunni hafa heyrst gagnrýnisraddir á hugmyndina.

Óheppilegt sé að selja bankann þegar óvissa sé uppi í ferðaþjónustunni sem Íslandsbanki sé stór lánveitandi til og áhyggjur eru af mögulegri áhættusækni kaupenda.

„Þetta er ekki verri tími en hver annar til að selja banka. Ef þú vilt finna rangan tíma eru allir tímar rangir,“ segir Jón Daníelsson prófessor í hagfræði við London School of Economics og forstöðumaður rannsóknarseturs um kerfisáhættu í fjármálakerfinu. Þó að mistök hafi verið gerð við einkavæðingu bankanna við upphaf aldarinnar sé ekki hægt að leika sama leik og í aðdraganda bankahrunsins.

„Regluverkið og hið alþjóðlega fjármálaumhverfi er allt annað. Það getur enginn endurtekið það sem bankarnir gerðu árið 2008. Þú getur ekki búið til sömu banka upp úr einkavæðingu árið 2021 og um aldamótin. Það er ekki fræðilega séð hægt. Áhættan af því að það endurtaki sig sem gerðist fyrir hrunið heldur ekki vatni,“ segir Jón.

Þá segist Jón eiga erfitt með að átta sig á rökum um að mögulegir kaupendur á bönkum hafi sérstakan áhuga á að eignast illa stæð ferðaþjónustufyrirtæki fyrir lítið.

„Kaupendur að bönkum eru sérfræðingar í rekstri banka. Það þarf öðruvísi sérþekkingu til að reka ferðaþjónustufyrirtæki.“ Fyrirtæki hámarki eigin hagnað með því að starfa á því sviði sem þau hafi sérþekkingu á. Mestar líkur séu á að fjármálafyrirtæki myndu lúta í lægra haldi fyrir samkeppnisaðilum í ferðaþjónustu myndu þau reyna að keppa á því sviði.

Alþjóðlegar rannsóknir hafi sýnt að ríkið sé ekki heppilegur eigandi að bönkum til lengri tíma. „Fólk er búið að gleyma því hvernig ástandið var fyrir einkavæðinguna. Þegar það þurfti flokksskírteini til að fá þjónustu í bönkunum og fólk gat leitað til stjórnmálamanna til að fá fyrirgreiðslu ef bankinn sagði nei,“ segir hann. Vel færi á því ef bankarnir yrðu seldir fyrr en seinna.

„Við þurfum banka sem er ekki eins stífur og hefðbundinn ríkisbanki til að styðja við nýsköpunarfyrirtæki til framtíðar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér