Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kveðst hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun grískra stjórnvalda að vísa tilboði alþjóðlegra lánveitenda í þjóðaratkvæði. Þetta sagði hann á blaðamannafundi fyrr í dag, en bætti því jafnframt við að þjóðaratkvæðagreiðslan, sem fer fram á sunnudag, snúist ekki aðeins um það hvort Grikkland samþykki tilboð lánveitenda, heldur einnig hvort landið verði áfram í evrusamstarfinu.

Juncker sagði þetta útspil Grikklands óvænt. „Grísk stjórnvöld gengu óvænt í burtu frá samningaborðinu á föstudag, og það gerðist á ögurstundu.“ Á blaðamannafundinum hvatti hann grísku þjóðina til þess að samþykkja tilboðið í þjóðaratkvæðagreiðslunni og sagði að Grikkir ættu ekki að fremja sjálfsmorð af ótta við dauðann.

Grísk stjórnvöld tilkynntu í morgun að bankar innan landsins yrðu lokaðir alla vikuna vegna skorts á lausafé, en Seðlabanki Evrópu hafði þá tekið ákvörðun um að hætta að veita grískum bönkum lausafjáraðstoð. Einnig hefur hámark verið sett á úttektir og er fólki nú aðeins heimilt að taka út 60 evrur að hámarki hvern dag.