Snorri Halldórsson á og rekur fyrirtækið Tickled Pet ásamt tveimur Bandaríkjamönnum en þeir gera út frá New York. Undanfarin ár hafa þeir verið að þróa gæludýrafóður, meðal annars úr fiskroði, og var laxaroðs hundanammi fyrirtækisins valið besta nýja hundanammið af hinu þekkta tímariti People. Snorri segir að hann hafi fyrst um sinn orðið smeykur þegar nammið varð fyrir valinu.

„Þetta tímarit er gefið út í einhverjum 3,7 milljónum eintaka auk þess að vera á Netinu. Það þyrfti því bara brotabrot af lesendum að kaupa vöruna til þess að það yrði verulegur kippur í sölu og ég var hræddur um að við hefðum ekki nóg roð til að anna eftirspurn. Við ættum bókstaflega ekki roð í þetta," segir hann.

Hann segir fyrirtækið hafa vaxið jafnt og þétt undanfarin ár en faraldurinn hafi sett tímabundið strik í reikninginn.

„Covid hefur haft margþætt áhrif á reksturinn og vöruframboð. Það er alveg glórulaust að vera með þá uppsetningu að senda eitthvað til Víetnam og svo til Bandaríkjanna í þessu ástandi. Í stað þess að gámurinn milli Víetnam og Bandaríkjanna kosti 4 þúsund dollara þá kostar hann 19 þúsund til 23 þúsund dollara, það er ef þú ert svo heppinn að ná honum út úr höfninni yfirleitt. Það hefur líka tekið langan tíma að fá gáma og áskorun að fá hráefni, svo eitthvað sé nefnt af þeim áskorunum sem við höfum staðið frammi fyrir."

Nánar er rætt við Snorra í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .