Skemmtilegt er að skoða þau fyrirtæki á listanum Keldan 300+ með tekjur yfir 500 milljónum sem höfðu mesta arðsemi eigin fjár í fyrra. Þar situr verslunin Garðheimar á toppnum með 1000% arðsemi. Hagnaður Garðheima var raunar ekki nema 10 milljónir króna á síðasta ári, eða sem samsvarar um einu prósenti af tekjum verslunarinnar, en eigið fé fyrirtækisins var aðeins ein milljón króna í lok síðasta árs.

Flest þau fyrirtæki sem höfðu mesta arðsemi eigin fjár höfðu jafnframt mjög lágt eiginfjárhlutfall. Lögfræðistofurnar BBA Legal og LEX eru helsta undantekningin þar á.

European Risk Insurance Company er það fyrirtæki á listanum sem hafði versta eiginfjárhlutfallið í lok síðasta árs. Skuldbindingar þessa tryggingafélags, sem hætti starfsemi í fyrra, nema um sexföldum eignum þess. Alvogen Iceland, Íslensk erfðagreining, CCP og Primera Air eru í næstu fjórum sætum þar fyrir neðan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .