Stofnfiskur hf. velti þremur milljörðum í fyrra sem er ríflega helmingi meira en árið á undan. Hagnaður jókst á líka mikið eða um 42% og nam 712 milljónir króna á síðasta rekstrarári, sem náði yfir tímabilið 1. október 2017 til 30. september 2018. Félagið framleiðir laxahrogn og laxa- og hrognkelsaseiði, auk sértækrar ræktunar á atlantshafslaxi. Þá sinnir félagið einnig þróun, rannsóknum og ráðgjöf hérlendis sem og erlendis. Félagið er með eldisstöðvar í Kalmanstjörn hjá Höfnum á Reykjanesi, í Vogavík í Vogum á Vatnsleysuströnd á Reykjanesi og Kollafirði í Mosfellsbæ. Þar að auki rekur félagið hrognkelsaeldi í Höfnum.

Breska fjölþjóðafyrirtækið Benchmark Holdings er langstærsti hluthafi Stofnfisks með tæplega 90% hlut í sinni eigu. Breska félagið er skráð á svokallaðan AIM markað kauphallarinnar í London, sem er markaður sem svipar til First North markaðarins í kauphöll Nasdaq hér á landi.

Hagnaður félagsins jókst um 42% frá fyrra rekstrarári þegar hagnaðurinn nam 500 milljónum króna. Velta Stofnfisks nam tæplega 3 milljörðum króna og jókst um ríflega 50% frá fyrra rekstrarári. Hagnaður af rekstri (EBIT) nam 932 milljónum króna og jókst um 280 milljónir á milli rekstrarára. Þá nam EBITDA 1,3 milljörðum og jókst um 400 milljónir frá fyrra rekstrarári. Á síðasta rekstrarári störfuðu 66 starfsmenn hjá félaginu en laun og launatengd gjöld námu 670 milljónum og hækkuðu um 105 milljónir frá fyrra rekstrarári.

Eignir Stofnfisks námu tæplega 4,8 milljörðum króna í lok síðasta rekstrarárs. Þar af námu lífrænar eignir félagsins tæplega 2,5 milljörðum króna, en undir lífrænar eignir falla laxar til ræktunar, laxahrogn, laxasvil og hrognkelsaseiði. Eigið fé nam 2,8 milljörðum króna og jókst um 721 milljón frá fyrra tímabili. Eiginfjárhlutfall var því 58% í lok síðasta rekstrarárs. Skuldir í lok síðasta rekstrarárs námu 1,9 milljörðum króna og lækkuðu þær lítillega á milli ára, eða um 26 milljónir. Innkoma

Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Stofnfisks, segir að aukin framleiðsla laxeldis hafi falið í sér tækifæri fyrir Stofnfisk.

„Meginhluti af okkar framleiðslu eru laxahrogn. Hér á Íslandi erum við með einn heilbrigðasta laxastofn sem finnst í heiminum og fyrir vikið getum við flutt hann til nánast allra landa í heiminum. Við erum að flytja vörurnar okkar út til 24 landa víða um heim. Hrognkelsaframleiðslan hefur einnig aukist mikið hjá okkur undanfarin ár. Við framleiðum hrognkelsaseiði og seljum mest af þeim til Færeyja, en markaðurinn fyrir þau er einnig að aukast hér innanlands vegna aukinnar framleiðslu í laxeldi. Hrognkelsin eru sett í kvíarnar með laxinum og þau éta svo lúsina af laxinum.“

Eins og áður hefur komið fram er Stofnfiskur að stærstum hluta í eigu Benchmark Holdings og segir Jónas að Benchmark hafi leikið lykilhlutverk í sókn Stofnfisks á erlenda markaði. „Um 80% af okkar tekjum koma erlendis frá en við erum hluti af miklu stærri keðju, Benchmark, sem á nokkur dótturfélög. Frá því að Benchmark eignaðist meirihluta í Stofnfiski árið 2014 hefur félagið vaxið jafnt og þétt. Það að við séum orðin hluti að stórri alþjóðlegri keðju, hefur auðveldað okkur að komast inn á alþjóðlega markaðinn.“