Gestur Hjaltason hefur verið framkvæmdastjóri raftækjaverslunarinnar ELKO frá árinu 2002 og hefur fyrirtækið gengið í gegnum mikinn vöxt á þeim tíma.

Það má segja að margt hafi breyst frá því að þú tókst við?

„Þetta hefur verið 20-30% vöxtur á hverju ári og stundum í stærri stökkum og ætli veltan okkar sé ekki um tíu milljarðar í dag. Þetta hefur verið afskaplega skemmtilegur tími og ég er mjög heppinn að margt af lykilfólkinu sem er hérna með mér hefur verið hérna í tíu ár eða lengur. Verkefni okkar hafa aðallega verið að kaupa og selja, leiðinlegu hlutunum á borð við peningamálin, bókhaldið og mannauðsmálin hefur verið útvistað til móðurfyrirtækisins.

Hefur eitthvað breyst með nýjum eigendum?

„Fyrir mér er þetta mjög svipað og að vinna með Norvik, nema bara nýir eigendur. Auðvitað koma einhverjar nýjar áherslur sem hafa verið til góðs. Það er mannlegt eðli að ef hlutirnir ganga vel er lítið verið að tala við mann, en um leið og það fer að hægja aðeins á er farið að anda ofan í hálsmálið á manni. Blessunarlega er maður búinn að vera laus við það enda er hér frábær liðsheild traustra samstarfsmanna sem vinna gott verk, þetta hefur verið skemmtilegur tími. En þetta er erfiður bransi og maður þarf að vera á tánum allan tímann.“

Aukin sala fylgir bættum lífskjörum

Þið virðist hafa komist sterk í gegnum efnahagshrunið. Hvaða tími var erfiðastur og hvenær fór þetta að snúast við aftur?

„Árið 2008 strax eftir hrunið töpuðum við peningi. Það voru miklir erfiðleikar því innkaupsverð hækkuðu um tugi prósenta en við héldum okkar striki, við héldum áfram að auglýsa, breyttum litlu og hækkuðum verðin í áföngum eftir fremsta megni. Við tókum á okkur heilmikið tap því við gátum ekki hækkað verð eins og við hefðum þurft. Við fækkuðum mannskap um tíma, sumir fóru í tvö störf, við fækkuðum á skrifstofunni þannig að þeir sem voru komnir þangað fóru aftur niður á gólf. Við höfum síðan unnið okkur aftur inn í það að vera komnir á fullt, sama fólkið og var áður á skrifstofunni er komið aftur og við höfum jafnvel fjölgað til að mæta nýjum áskorunum og aukinni markaðssókn. Þetta er svolítið farið úr því að vera litla ELKO yfir í að vera sjálfstæðari eining. Við erum ekki hættir þar, það getur vel verið að bókhald og fjármál komi hér inn, það er skynsamlegt að færa þessa starfsemi nær rekstrinum.“

Finnið þið þá alveg fyrir því núna að hagurinn í samfélaginu er að vænkast?

„Við sjáum það alveg. Það var svolítið skrítið að það sem hélt okkur á floti á erfiðustu tímunum var afþreyingarpakkinn sem kom í auknum mæli til okkar. Það var nýtt fyrir okkur og gerði það að verkum að við höfðum ekkert ólíka veltu og áður, en kannski bara úr bransa sem var með lægri framlegð en var samt sem áður mjög mikilvægur fyrir okkur. Núna er sá hluti aftur að hverfa út af nýjungum á borð við Netflix og Spotify, þannig að þetta eru endalausar breytingar og það þarf að vera alveg á tánum að finna hvað maður á að gera þá. En undanfarin þrjú ár hefur verið alveg ævintýralegur vöxtur í sölu og það hangir svolítið við aukin fasteignakaup og betri lífskjör. Fólk endurnýjar gjarna eldhúsin þegar það flytur í nýtt húsnæði, þetta tók dýfu strax eftir hrun en er núna komið í eðlilegra horf.

Sala á sjónvörpum hefur haldist öflug frá hruni og verðin hafa snarlækkað, að kaupa 42“ sjónvarp kostaði á tímabili um milljón en nú er hægt að fá það á 100.000 kall. Fartölvur eru alltaf í svipuðum verð­ flokki en sjónvörpin hafa hins vegar sannarlega lækkað, enda er það þannig að þegar einhver tækni er orðin kannski þriggja ára gömul er hún komin á hálfvirði og eitthvað annað komið í staðinn: internet-sjónvarp, OLED, 4K og hvað þetta nú allt heitir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .