Susan Christianen viðskiptaþróunarstjóri er einn þriggja starfsmanna Auðnu Tæknitorgs.

„Við erum landskrifstofa fyrir tækniyfirfærslu fyrir alla háskóla á Íslandi og flestar rannsóknarstofnanirnar, má þar nefna sem dæmi Matís. Okkar hlutverk er að hjálpa vísindamönnum að koma rannsóknum sínum út á markaðinn, með það að markmiði til dæmis að hjálpa til við að ná heimsmarkmiðum SÞ og áskorunum Norðurskautsráðsins,“ segir Susan hvers starfsferill hefur oftsinnis borið að Íslands ströndum.

„Fyrsta skiptið var árið 2004, en þá var ég enn í námi í alþjóðlegum markaðssamskiptum í Hollandi þaðan sem ég er frá, þegar ég komst í starfsnám, sem hluta af lokaverkefni mínu og í framhaldinu vinnu í eitt og hálft ár, hjá Nikita hér á landi. Svo fór ég aftur út til Hollands í nám í iðnhönnun og eftir það fór ég fyrst í starfsnám og síðan vinnu með ís-, snjó- og „magnetite“ sem byggingar- og skúlptúrefni við Íshótelið í Norður-Svíþjóð. Seinna vann ég meðal annars við að setja upp íshellinn í Perlunni.

Meðan ég bjó í Svíþjóð komst ég í rannsóknarhóp sem heimsótti geimvísindastöð evrópsku geimvísindastofnunarinnar í Kiruna og komst í samskipti við fólk og verkefni þar sem leiddi til þess að ég fór að starfa við tækniyfirfærslu hjá stofnuninni seinna. Ég flutti svo aftur til Íslands í janúar 2016, eftir að ég fékk starf hjá 66°Norður, en árin á undan kom ég í heimsóknir hingað til að finna samstarfaðila fyrir ESA skrifstofu hér á landi.“

Susan segir ýmis konar áskoranir við oft öfgakenndar aðstæður alltaf hafa heillað sig. „Að vinna að hönnun á lausnum fyrir erfiðar aðstæður hefur alltaf verið fókus í mínu starfi, ég komst til dæmis í leiðangra á Taimyr skagann í Síberíu, sem er lokað svæði fyrir ferðamenn, til að vinna að sjálfbærum lausnum fyrir frumbyggjasamfélagið þar.

Hjá geimvísindastofnuninni vann ég með ýmsum atvinnugreinum, til dæmis námugeiranum, byggingageiranum sem og heilbrigðisgeiranum, þar sem við notuðum efni sem áður voru eingöngu notuð fyrir geiminn til að þróa föt sem ekki er hægt að stinga nálum í gegnum fyrir vinnu á svæðum þar sem ebóla geisar,“ segir Susan.

„Ég stunda alls kyns útivist, fjallgöngur sem og brimbretti, líka hérna á Íslandi sem er mjög gaman og ekkert kalt ef maður er með búning úr réttu efni. Ég elska djass, spila á píanó og kontrabassa og dansa Lindy Hop og aðstoða við kennslu hjá Sveiflustöðinni. Ætli áhugann á þessu öllu megi ekki rekja til þess að alveg frá því að ég var lítil hef ég alltaf haft áhuga á ævintýrum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .