*

þriðjudagur, 26. maí 2020
Innlent 21. desember 2019 15:09

Ævintýri Edwards í gegnum tíðina

Michele Roosevelt Edwards hugðist breyta gamalli kirkju í veitingastað, hótel og heilsulind en verkefnið komst aldrei af teikniborðinu.

Jóhann Óli Eiðsson
vb.is

Það sem af er ári hefur verið fjallað um ævintýri og ítök Michele Roosevelt Edwards, eiganda Wow 2.0, á austurströnd Afríku. Viðskiptablaðið ákvað að kanna sögu hennar eilítið frekar.

Á árum áður beitti hún sér í samningaviðræðum við sómalska pírata við að reyna að losa fólk úr þeirra haldi. Umdeilt er hvort hún hafi þar gert meira gagn en ógagn en í leka WikiLeaks frá 2010, en þá gekk hún undir nafninu Michele Lynn-Golden Ballarin, er að finna bréf frá Volodymyr Ohryzko, fyrrverandi utanríkisráðherra Úkraínu, til Hillary Clinton, starfssystur hans í Bandaríkjunum, þar sem hann biður bandarísk stjórnvöld að stöðva afskipti Ballarin af máli Úkraínumanna sem voru í haldi sjóræningja.

Sjá einnig: Ætlaði að leggja vegi í Kenýa

Þá hefur Ballarin komið nálægt rekstri flugfélagsins Air Djibouti en það sér meðal annars um fraktflug milli áðurnefnds Dullesflugvallar og Djibouti-Ambouli flugvallarins. Í Djíbúti er meðal annars að finna allstóra herstöð Bandaríkjahers og hefur flugfélagið meðal annars komið að flutningum á fólki og varningi til hennar og frá. 

Þá verður ekki um það deilt að Edwards er ágætlega tengd þar ytra og heimalandinu. Árið 1986 reyndi hún fyrir sér í pólitík og bauð sig fram til þings en hafði ekki erindi sem erfiði. Jafnt og þétt stækkaði tengslanetið þó áfram.

„Við erum mjög, mjög ánægð,“ var haft eftir Michele, þá GoldenBallarin, í viðtali við Baltimore Sun árið 1997. Tilefnið var útgáfa svokallaðrar „Grænbókar“ en þar var á ferð símaskrá með um 5.500 nöfnum fyrirmenna í Washington og nærsveitum. Að komast í bókina var enginn hægðarleikur en til þess þurfti að fá meðmæli þriggja, sem þegar voru í bók fyrra árs, og síðan þurfti að samþykkja nafnið. Til að koma sér í bókina höfðu hjónin um árabil boðið broddborgurum á pólómót á lóð sinni.

Veitingastaður í kirkju

Í fyrra sögðu bandarískir miðlar síðan frá fyrirætlunum Edwards um að breyta gamalli kaþólskri kirkju, í bænum Warrenton í Virginíu-ríki, í veitingastað, hótel og heilsulind. Samningur var gerður milli stjórnvalda í bænum og Oasis Life Sciences, félags Edwards, um breytingar á kirkjunni. Áætlanir gerðu ráð fyrir því að verkefnið myndi kosta allt að fjórar milljónir dollara. Ekkert varð hins vegar úr því eftir að bæjaryfirvöld féllust ekki á framlengingu á frestum sem beðið var um. Þá heftur einnig verið fjallað ytra um hugmyndir hennar um að koma á laggirnar lífsstíls- og matvælafyrirtækinu Rejuvenescence. Í svari upplýsingafulltrúa félagsins við fyrirspurn blaðsins kom fram að áætlanir hefðu ekki gengið upp og starfsemi þess í mýflugumynd miðað við það sem stefnt var að.

„Það er helst af tveimur ástæðum sem endurreisn Wow hefur ekki gengið á þeim hraða sem við héldum. Annars vegar sökum þess að það hefur reynst flóknara en gert var ráð fyrir og hins vegar hafa aðstæður á alþjóðlegum flugmarkaði gefið tilefni til að rýna þær frekar og skoða áætlanirnar,“ segir Gunnar Steinn Pálsson, talsmaður Edwards hér á landi.

Gunnar segir ekki tímabært að útlista með nákvæmari hætti hvaða áskoranir hafa orðið í vegi þeirra. Þó geti hann sagt að unnið sé að því að ákveða með hvaða hætti og hve hratt félagið kemur til með að vaxa eftir fyrsta flug. Sem stendur sé tíminn í jómfrúrflugið talinn í vikum frekar en mánuðum og vonast til þess að vera með þokkalegan fjölda áfangastaða áður en háannatími hefst. Fyrir liggi þó að fyrst um sinn muni þáttur fraktflutninga verða stór en með tímanum verði aukning í farþegaflutningum.

 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

 

Stikkorð: Wow Ballarin Roosevelt Edwards