„Íslenskir togaraskipstjórar hafa lengi rætt um að kanna þetta svæði en það hefur ekkert gerst í málinu fyrr en að Ásgeir á Björgvini EA lét á það reyna nú í aflatregðunni á heimamiðum. Árangurinn var ævintýralegur og ævintýrið virðist bara halda áfram. Við erum búnir að fara tvo túra og aflinn er samtals um 310 tonn.”

Þetta segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK, í frétt á heimasíðu Brims en skipið kom til hafnar í Reykjavík á fimmtudag með 130 tonn. Uppistaða aflans var þorskur. Svæðið, sem Eiríkur ræðir um, er Dohrn-bankinn um 90 til 100 mílur vestur af Látrabjargi. Í túrnum á undan fengu Eiríkur og hans menn um fullfermi og var því landað á sunnudeginum á Grundarfirði eftir tæpa þrjá sólarhringa á veiðum. Þar af var þorskur 155 tonn.

„Við vorum alltaf vissir um að þarna væri fiskur en að magnið væri svona mikið og þorskurinn væri jafn stór og raun ber vitni, er eitthvað sem mig óraði ekki fyrir. Þetta var mikið sex til tíu kílóa þorskur. Við vorum að sjá fiska upp í 17-18 kíló að þyngd. Vélarnar í vinnslunni ráða vel við fisk upp í 12-13 kíló en stærsta fiskinn flokkuðum við frá og ég held að hann hafi farið í einhverja saltfiskvinnslu,” segir Eiríkur en þessi óvænti mokafli af stórum og góðum þorski vekur upp gamlar vertíðarminningar.

„Lifrin í þessum fiski er svakaleg. Ég held að ég hafi ekki séð svona fallega, hvíta lifur áður. Í þorskinum úr fyrri túrnum voru 12-15 tonn af lifur,” segir Eirikur.