*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 21. maí 2021 12:32

„Af augljósum ástæðum afþakkaði ég það“

Benedikt Jóhannesson sóttist eftir oddvitasæti hjá Viðreisn en var boðið neðsta sæti á lista sem hann hafnaði.

Ritstjórn
Benedikt Jóhannesson.
Haraldur Guðjónsson

Benedikt Jóhannesson, mun ekki taka sæti á lista Viðreisnar í komandi Alþingiskosningum. Benedikt, sem er einn stofnenda flokksins og fyrsti formaður hans, óskaði eftir oddvitasæti á lista á Suðvesturhorninu en varð ekki að ósk sinni. Í færslu á Facebook segir hann frá fundi sínum með Þorsteini Pálssyni, formanni uppstillingarnefndar, þar sem Þorsteinn sagði það hafa verið einróma niðurstaða nefndarinnar að bjóða Benedikt neðsta sæti listans. „Af augljósum ástæðum afþakkaði ég það,“ segir Benedikt.

Benedikt lét af störfum sem formaður flokksins í aðdraganda Alþingiskosninganna árið 2017 en hann var fjármálaráðherra flokksins í skammlífri ríkisstjórn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins.

Benedikt bendir á að hann hafi sjálfur lagt til að prófkjör yrði á listum flokksins þegar ljóst var að margir frambjóðendur væru um efstu sæti flokksins. „Ég taldi að í flokki sem legði áherslu á opið og gagnsætt ferli væri eðlilegast að efna til prófkjörs, þegar margir sæktust eftir að leiða lista. Ég lagði það til. Reykjavíkurráð flokksins valdi annan kost og uppstillingarnefnd valin,“ bendir Benedikt á.

„Þar með er útséð um að ég verði í framboði fyrir Viðreisn að þessu sinni, en ég held áfram í pólitík og styð nú sem fyrr grunnstefnu Viðreisnar, enda hygg ég að ég hafi skrifað megnið af henni. Sjaldan hefur verið brýnni þörf fyrir einbeitta, frjálslynda rödd í samfélaginu og ég mun ekki láta mitt eftir liggja,“ segir Benedikt.