Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands hafa kortlagt byggingarferil húsnæðis hér á landi. Niðurstaða kortlagningarinnar er að flókið regluverk eykur bæði tíma og kostnað sem fer í byggingu húsnæðis hér á landi, en flækjustigið leiðir á endanum til hærra húsnæðisverðs.

Samkvæmt kortlagningu ráðsins má skipta byggignarferlinu í tólf skref. Á hverju skrefi mætir húsbyggjandi vandamálum sem tengjast íþyngjandi regluverki eða óskilvirkum vinnubrögðum hins opinbera, en oftar en ekki eru þessi vandamál séríslensk.

Óskilvirk framkvæmd

Viðskiptaráð bendir m.a. á að byggingarfulltrúi beri að skoða allt að 904 atriði þegar hönnunargögn eru afhent, en Skortur á samræmdum vinnubrögðum leiðir til þess að stór hluti fulltrúa fer yfir öll atriðin þótt um smærri framkvæmdir sé að ræða og slíkt sé óþarft. Einnig getur húsbyggjandi þurft að leita til 51 ólíkra byggingarfulltrúa eftir því hvar eignin er staðsett auk þess sem 21 sjálfstæð áfangaúttekt þarf að fara fram, auk öryggis- og lokaúttektar áður en mannvirkið er tekið í notkun.

Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð óska því efir einfaldara regluverki og breytti stofnanaumgjörð. Meðal þeirra umbóta sem lagðar eru fram eru að veita Mannvirkjastofnun skýrt íhlutunarvald gagnvart byggingarfulltrúaembættum, samræma reglur um lóðaúthlutanir á landsvísu, fækka atriðum sem farið er yfir við afgreiðslu byggingarleyfis, heimila húsbyggjanda að sinna jafnframt hlutverki byggingarstjóra í sérbýli, þrepaskipta kvöðum um skil hönnunargagna, draga úr umframkröfum í byggingareglugerð, auka notagildi áfrýjunarréttar, einfalda gjaldheimtu sveitarfélaga og fækka sjálfstæðum úttektum.

Með þessum aðgerðum væri hægt að draga úr sóun á tíma og fjármunum vegna óskilvirks stofnanaumhverfis og íþyngjandi regluverks.