Þeir sem hringja í Útlendingastofnun utan opnunartíma geta hlustað á skilaboð spiluð af símsvara. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður og formaður þingflokks Pírata, hefur lagt fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra fyrirspurn á Alþingi þar sem hún vill fá svarað þeirri spurningu hversu lengi skilaboðin á símsvaranum hafi eingöngu verið á íslensku.

Af fyrirspurn Birgittu má dæma að henni finnst það skjóta skökku við að skilaboðin hjá Útlendingastofnun séu eingöngu á íslensku.

„Var það meðvituð ákvörðun þegar skilaboðin voru lesin inn á símsvarann að hafa þau eingöngu á íslensku ? Ef svo var, hvaða röksemd bjó að baki þeirri ákvörðun? Ef ekki, hvers vegna var ekki tekið tillit til þess að hátt hlutfall skjólstæðinga Útlendingastofnunar skilur ekki íslensku?“ spyr Birgitta.