„Það stefnir mögulega í kvíðaröskun hjá viðskiptalífinu öllu ef Seðlabankinn heldur áfram lækkunarfasa og hávaxtaumræðan er fyrir bí - það þurfi að endurraða öllum vírunum í hausnum til að stilla sig inn á umræðu um lága vexti,“ sagði Védís Hervör Árnadóttir, samskipta- og miðlunarstjóri Viðskiptaráðs, í gamansömum tóni í erindi sínu á Peningamálafundi ráðsins í gær. Fjallað er um fundinn á vef Viðskiptaráðs í dag.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, fagnaði í ræðu sinni vaxtalækkun Seðlabankans og sagði viðskiptalífið sannarlega hafa lítinn smekk fyrir háum vöxtum.  „En hefðum við smekk fyrir engum vöxtum eða neikvæðum vöxtum þegar til framtíðar er litið?“ spurði Katrín Olga.

Hún fjallaði stuttlega um þróun efnahagsmála undanfarin misseri og sagði hagtölur hafa verið nokkuð mótsagnakenndar. Þrátt fyrir að flugfélag hafi fallið og ferðamönnum fækkað hafi þjónustujöfnuður útflutnings haldist  mjög sterkur og jafnvel batnað á öðrum fjórðungi ársins í ár.

„Áfallið er því öllu minna en við óttuðumst flest og það má velta fyrir sér hvers vegna. Er það vegna þess að peningastefnan er að virka? Eða er það vegna þess að kostir krónunnar eru loksins að koma fram? Endurspeglar þessi staða kannski, sálræna líðan þjóðarinnar, sem nú einkennist af varkárni og ákveðinni hræðslu um að hlutirnir séu verri en þeir eru? Eða getur verið að fyrirtæki og heimili séu orðin sveigjanlegri og eigi auðveldara með að takast á við mögru árin? Það verður fróðlegt að sjá hvort við getum fengið einhver svör við þessum vangaveltum í dag,“ sagði Katrín Olga.