Á ráðstefnu Alþjóðaviðskiptaráðsins í Davos hefur verið fjallað um að aukin vélvæðing starfa og upprisa gervigreindarinnar gæti haft lækkandi verðhjaðnandi áhrif á heimsvísu

Röksemdafærslan er sú að með aukinni vélvæðingu munu sífellt fleiri missa vinnuna - þar eð skilvirkara og ódýrara er að kaupa þjarka en ráða fólk - og þeir sem ekki missa vinnuna munu finna fyrir launalækkunum í hlutfalli við skilvirknisaukningu í framleiðslu vegna vélvæðingar.

Verðhjaðnandi áhrif vélvæðingar

Magnús Þór Torfason, lektor hjá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, telur líklegt að sjálfvirknivæðingin muni hafa verðhjaðnandi áhrif, líkt og Kína hefur gert síðustu áratugi.

„Það er búið að vera endalaust framboð af vörum frá Kína. Mér myndi finnast rökrétt að sjálfvirknivæðing hefði nákvæmlega sömu áhrif,” segir Magnús. „Síðan er hægt að velta fyrir sér hver áhrifin verða. Verðhjöðnunaráhrifin frá Kína eru að minnka. Það gæti vegið á móti sjálfvirknivæðingunni.”

Verðhjöðnunaráhrifin munu hafa þau áhrif að verðlag á heimsvísu helst mun lægra en áætlað hefur verið - sem þýðir að verðbólguvandkvæði seðlabanka á heimsvísu (þar má helst nefna seðlabanka Evrópu og Bandaríkjanna) eru aðeins rétt að byrja. Viðskiptablaðið hefur fjallað um hagrænar aðgerðir seðlabankanna.

5 milljón störf glatast - eða hvað?

Samkvæmt útreikningum sem kynntir voru á ráðstefnunni munu vélmenni hirða til sín einhver 5 milljón störf á næstu 5 árum. Tveir meðstofnenda ráðstefnunnar héldu þá erindi þar sem metið var að vél- og gervigreindarvæðing myndi gera út af við 7 milljón störf en skapa 2 milljónir starfa á móti - sem gerir nettó 5 milljón starfa missi.

Magnús telur að Ísland muni verða einhverju seinna til að finna fyrir vélvæðingaráhrifunum, en að starfaeyðingin muni þó koma. Þá sé aukin vélvæðing sérfræðingum og atvinnufólki sem starfar við gervigreindarþróun og viðhald í hag.

„Varðandi eyðingu starfa þá er það oftast þannig að þau hverfa til einhvers tíma og svo verða til ný störf,” segir Magnús. „Til að mynda verður sífellt verðmætara að geta starfað með gervigreind og vélbúnaði, meðan þeir sem eru í samkeppni við tæknivæðinguna munu koma verr út úr henni.”

Stóru íslensku atvinnugreinarnar öruggar

Magnús telur stærstu atvinnugreinar Íslendinga - ferðamannaiðnaðinn og útgerðariðnaðinn - tiltölulega öruggar hvað sjálfvirknivæðinguna varðar, eins og tæknin er núna. Þá muni eftirspurn fyrir mannlegri og persónulegri þjónustu gera það að verkum að störf í ferðamannaiðnaðinum muni síst hverfa.

„Bæði fiskurinn og ferðamannaþjónustan, það mun ekkert koma í staðinn fyrir það,” segir Magnús. „Fólk vill fá persónulegri þjónustu þegar það er að ferðast. „Það er kannski möguleiki á að vélvæða nánar bókunarkerfi og þvíumlíkt, en umfram það munu ekki glatast mörg störf í ferðamannaiðnaðinum.”