*

mánudagur, 17. febrúar 2020
Fjölmiðlapistlar 3. febrúar 2019 13:54

Af vondu fólki

Fyrir fréttum þarf að hafa heimildir og þær á að öllu jöfnu að nefna.

Andrés Magnússon
Fjölmiðlarýnir gerir frétt um framkomu og ástand Gunnars Braga Sveinssonar þingmanns að umfjöllunarefni sínu þessu sinni, ásamt mikilvægi góðra heimilda í fréttaflutningi.
Haraldur Guðjónsson

Það var helst í fréttum í hádegisfréttum Bylgjunnar á laugardag, að Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, hafi verið fullur og vitlaus á leiksýningu helgina áður. Stefán Óli Jónsson fréttamaður hafði ónafngreinda heimildarmenn fyrir þessu, en af því var dregin sú ályktun að opinber bindindisheit hans væru röng.

Á daginn kom hins vegar að það var fréttin, sem var röng. Í yfirlýsingu fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis var játað að þar hefðu verið gerð „mistök með því að birta fréttina áður en náðist í Gunnar Braga sjálfan eða heimildir fengust staðfestar“. Á því var beðist afsökunar, ítrekað að fréttaflutningurinn hefði ekki verið samkvæmt ritstjórnarstefnu miðlanna og fréttin fjarlægð af vef systurmiðilsins Vísis.

Miðað við tilefnið gátu þessi viðbrögð fréttastofunnar ekki verið dræmari. Gunnar Bragi var ekki beðinn afsökunar, heldur var aðeins beðist afsökunar svona almennt, á því að hafa ekki farið nægilega vel eftir ritstjórnarstefnunni! Hins vegar var ekkert minnst á aðalefni fréttarinnar, sem snerist um að lýsa Gunnar Braga ósannindamann. Hvað þá að rakið væri hvernig svo hrapalleg mistök gátu átt sér stað.

Í fréttinni var útgangspunkturinn sá að þingmaðurinn hefði orðið tvísaga, um það gætu áhorfendur í leikhúsinu vottað og bæði vitnað til „heimilda“ og „viðmælenda“. Nú er erfitt að segja til um hvort þar ræðir um sama fólkið, hugsanlega var tekið svo til orða til þess að láta líta út fyrir að heimildirnar væru fleiri og tryggari en raunin var og allir leikhúsgestir þetta kvöld látnir votta það. Sú nálgun er svo ónákvæm að hún má heita óheiðarleg, því þar var a.m.k. meira sagt en fréttamaðurinn vissi.

Verra er að fréttamaðurinn lét undir höfuð leggjast að leita sjálfstæðra staðfestinga á fréttinni. Það er sjálfsögð vinnuregla við allar fréttir, en hún er bráðnauðsynleg þegar fjallað er um alvarleg mál, ekki síst þegar fréttastofan dró af ályktanir um sannsögli þingmannsins og gerði úr fyrstu frétt.

Það á auðvitað ekki síður við þegar fréttin hefur á sér augljóst ólíkindayfirbragð og einkenni hviksagna. Og þess þá heldur þegar haft er í huga hversu auðvelt væri að kanna sannleiksgildi þess að alræmdur þingmaður hafi verið með frammíköll í 550 manna sal viku fyrr.

Það er þó ekki svo að tímahrak hafi leitt fréttastofuna í þessa ógöngur. Ætlað tilefni var vikugamalt, svo tíminn var nægur. Annaðhvort vissi fréttastofan af málinu með nægum fyrirvara, svo kanna mætti sannleiksgildið til hlítar, eða ef henni barst sagan ekki til eyrna fyrr en á laugardagsmorgun, þá gat fréttin ljóslega beðið í nokkrar klukkustundir enn, meðan málið væri kannað. Af fréttinni var einnig ljóst að fréttamaðurinn hafði a.m.k. nægilegt ráðrúm til þess að leita viðbragða hjá skipuleggjanda mótmæla á Austurvelli síðar um daginn, sem taldi þetta nú heldur betur sýna fram á réttmæti síns máls.

Það skiptir máli að vera fyrstur með fréttirnar, en það skiptir meira máli að fréttirnar séu í raun og veru fréttir. Og það er einmitt hið sérstaka hlutverk fjölmiðla að grafast fyrir um þær og leita staðfestinga á, svo almenningi sé sagt satt.

* * *

Hvað þessa frétt varðar er erfitt að verjast þeim grun að Bylgjan hafi verið fúsari til þess að láta hefðbundin og eðlileg vinnubrögð mæta afgangi vegna þess hver í hlut átti. Að vegna þess að Gunnar Bragi varð uppvís að ósæmilegri framkomu á Klaustri á aðventunni megi og eigi helst að trúa honum til alls ills.

Það væri röng afstaða. Fjölmiðlum ber að grafast fyrir um hið sanna í hverju máli, óháð því hver í hlut á, staðfesta hið rétta og greina almenningi frá hinu mikilvægasta. Ekki því sem þeir best gætu trúað upp á þá.

Varðandi skipuleggjandann, þá var hann nafngreindur en ekkert frekar vikið að bakgrunni hans. Þar hefði verið rétt að greina frá því að hann var til skamms tíma varaborgarfulltrúi Pírata.

* * *

Aðeins um heimildarmenn: Fyrir fréttum þarf að hafa heimildir og þær á að öllu jöfnu að nefna. Vissulega er það stundum svo, að heimildarmenn vilja vera nafnlausir og þannig getur háttað, að fjölmiðlar þurfa að virða það. En fyrir því þurfa að vera sérstakar ástæður, ekki aðeins þær að heimildarmönnunum þyki það þægilegra. Oft er það þannig að heimildirnar skipta ekki öllu máli, en stundum þannig að heimildarmennirnir vilja ekki tjá sig nema í skjóli nafnleyndar. Þá fer best að því að fjölmiðlarnir finni aðrar heimildir, sem staðfesta má og nefna.

Ef heimildarmenn – tveir eða fleiri –  eru staðnir að ósannindum heitir það ófrægingarherferð. Trúnaður fjölmiðla við heimildarmenn á að vera forsenda hreinskilni, en ef hann er misnotaður til þess að koma lygi á framfæri eru forsendur trúnaðar á bak og burt. Þá ber fjölmiðlinum skylda til þess að afhjúpa lygamerðina, svo almenningi séu ljósar hvaða vélar eða illgirni bjuggu að baki. Ella er fjölmiðillinn í raun að játa á sig samsekt, að hann meti trúnað við lygarana meira en upplýsingu almennings.

* * *

Aðalheiður Ámundadóttir skrifaði um margt fína forsíðufrétt (og framhald á síðu 4) í Fréttablaðið um rót á liðskipan á Alþingi. Þar var vikið að því að þingmenn Miðflokksins kynnu að vera á förum, en þeir hafa síðan andæft því og fundið að því að þeir skyldu ekki einfaldlega hafa verið spurðir um það.

Fréttablaðið svaraði að blaðið hefði farið of geyst í fréttaflutningi af túlkun heimildarmanna. Auðvitað hefði það verið hin eðlilega leið að spyrja þingmennina út í þetta, eins og Fréttablaðið kveðst hafa reynt án árangurs. Það má rétt vera, en yfirleitt eru þingmenn nú með „ínáanlegasta“ fólki og skiptiborð Alþingis einstaklega liðlegt við fjölmiðla um aðstoð við það. Aftur er því mögulegt að Klausturvandræði Miðflokksins hafi gert Fréttablaðsmenn trúaðri á frekari vanda flokksins. Sem vel má vera rétt athugað, en fjölmiðlar verða að leita staðfestingar á slíku.

* * *

Forsíðufrétt síðustu Stundar var eilítið sama marki brennd. Þar greindi frá athyglisverðu máli, íslenskri konu sem eignaðist dóttur með kvæntum manni á Íslandi árið 1929, en til þess að forðast hneyksli kom hún barninu í fóstur í Skotlandi, þar sem það var ættleitt árið 1946. Konunni, sem aldrei vildi viðurkenna að hún ætti þessa dóttur, varð ekki fleiri barna auðið, en um aldarfjórðungi síðar tók hún ungan dreng í fóstur, sem hún og eiginmaður hennar arfleiddu að öllu sínu. Þau voru efnuð, en konan lést árið 1992. Nú vilja afkomendur dótturinnar, sem lést árið 2014, fá viðurkenningu á arfleifð hennar og helst arfinum líka, þó þeir undirstriki að ekki sé það nú þeim helst í huga, enda ósennilegt að undið yrði ofan af því.

Þetta er brakandi fínt mannlífsefni og blaðamaðurinn Jón Bjarki Magnússon gerir því um margt mjög góð skil. Hins vegar vill svo til að arfleidda fósturbarnið er Júlíus Vífill Ingvarsson, sem verið hefur til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna annarra erfðadeilna og peningaþvættis.

Í fyrirsögn og hluta fréttarinnar var látið að því liggja að í málinu væru einhver óhreinindi af hans hálfu. Af atvikaröðinni er það óskiljanleg niðurstaða. Dóttirin var orðin fulltíða þegar hann fæddist, en hann enn barn að aldri þegar íslensku hjónin, sem þá voru komin yfir miðjan aldur, arfleiddu hann. Á málinu öllu geta menn haft ýmsar skoðanir, fólk er flókið og tímarnir breyttir, en það að gera hann að einhverjum sökudólgi í málinu er fráleitt og aðeins til þess fallið að sverta hann að ósekju.

Er einhver skýring á því önnur en að Júlíus Vífill hafi verið auðvelt skotmark í ljósi fyrri synda og annarra deilna? Hvernig sem því er farið, þá blasir við að í því er engin sanngirni og bæði Stundina og greinina setur niður við þau efnistök.

* * *

Fólki verður ýmislegt á í lífinu, jafnvel svo að veki almenna hneykslan og fordæmingu, og frá því geta fjölmiðlar greint. En það má ekki verða til þess að fjölmiðlar trúi því aðeins til alls ills og geri það að sjálfgefnum söguþræði í öllum málum, þar sem það kemur við sögu síðan.