Leiðandi hagvísir Analytica (e. Composite Leading Indicator) lækkaði áfram í febrúar og efnahagshorfur hafa versnað til muna, og jafnar greiningafyrirtækið áfallinu nú við það sem varð í bankahruninu 2008.

Tölur sem liggja til grundvallar hagvísinum ná eingöngu fram í febrúar og því endurspeglar hagvísirinn ekki að fullu áfallið afvöldum COVID-19 veikinnar og aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu hennar. Það er hins vegar mat Analytica að áfallið sé hið versta síðan 2008, sbr. sviðsmyndir sem birtar eru á vef félagsins .

Leiðandi hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum, með því að skoða þætti sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins. Fjórir af sex undirliðum sem félagið skoðar lækka frá í janúar en mest framlag til lækkunar hefur væntingavísitala Gallup en einnig vöruinnflutningur og ferðamannafjöldi.

Langtímauppleitni mikilvægra undirþátta hefur verið sterk en nú er hætta á að í bráð hafi hún minna að segja. Sérstök óvissa er tengd ferðaþjónustu og lamandi áhrifum COVID-19 veikinnar á efnahagslíf og uppnám á vettvangi alþjóðastjórnmála tengt henni.

Framleiðsla hefur aðdraganda

Vísitölur leiðandi hagvísa hafa verið reiknaðar fyrir flest helstu iðnríki um áratugaskeið í þeim tilgangi að veita tímanlega vísbendingu um framleiðsluþróun.

Hugmyndin að baki vísitölunni er sú að framleiðsla hefur aðdraganda. Vísitalan er reiknuð á grundvelli þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Til að unnt sé að auka framleiðslu þarf t.d. að afla aðfanga og stofna til fjárfestinga.

Leiðandi hagvísir Analytica er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga. Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup. Í febrúar lækka fimm af sex undirþáttum frá fyrra ári.