Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í morgun upp dóma í þremur málum sem vörðuðu innflutning landbúnaðarafurða. Fyrirtækin Hagar, Sælkeradreifing og Innnes létu þar reyna á fyrirkomulag útboðs á tollkvótum fyrir búvörur og gjaldtöku fyrir þá. Þar komst dómurinn að þeirri niðurstöðu útboðsgjald, sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefur innheimt fyrir innflutningskvóta á búvörum, sé ólögmætt og stangist á við stjórnarskrá. Þrátt fyrir það var íslenska ríkið sýknað af skaðabóta kröfum í málunum.

Dómurinn féllst hins vegar ekki á það með stefnendum í málunum að álagning magntolls á vörur fluttar inn á svokölluðum WTO-tollkvótum sé ólögmæt. Þá telur dómurinn að þar sem gjaldtaka stjórnvalda hafi skilað sér í hærra verðlagi til neytenda, sé ekki hægt að fallast á kröfur stefnenda um endurgreiðslu hinna ólögmætu gjalda.

Gjaldið bitnar á hagsmunum neytenda

„Við fögnum þessari niðurstöðu og teljum hana áfanga í að brjóta niður þetta kerfi tollverndar og skömmtunar sem hefur komið hart niður á neytendum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Málin ganga að öllum líkindum til Hæstaréttar, en þessi niðurstaða um ólögmæti útboðsgjaldsins er engu að síður svo afdráttarlaus að Alþingi verður þegar í stað að taka þetta löngu úrelta fyrirkomulag til endurskoðunar.“

Ólafur segir að niðurstaða dómsins um að útboðsgjaldinu hafi verið velt út í verðlagið staðfesti málflutning FA um að núverandi fyrirkomulag hækki að ósekju verð á innfluttum búvörum og bitni á hagsmunum neytenda.

„Í dómunum felst að með ólögmætri skattlagningu hafi stjórnvöld valdið neytendum hundraða milljóna króna tjóni. Alþingi getur ekki skellt skollaeyrum við þeirri niðurstöðu. Það gengur ekki að neytendur séu áfram látnir borga ólöglegan skatt.“