Skiptum er lokið í þrotabúi Lystar ehf., sem rak McDonaldsstaðina á Íslandi fyrir hrun. Aðeins fékkst brot af lýstum kröfum í búið greiddar.

Eins og frægt varð þá ákvað eigandi Lystar, Jón Garðar Ögmundsson, að segja skilið við McDonalds vörumerkið í lok ársins 2009 vegna versnandi viðskiptaskilyrða. Þá varð hamborgarastaðurinn Metro til.

Metro var svo selt til félagsins Líf og heilsa í maí 2010 og í júlí sama ár var Lyst ehf. lýst gjaldþrota. Við það tækifæri sagði Jón Garðar í samtali við Morgunblaðið að hann ætti ekki von á öðru en að allar skuldir félagsins yrðu greiddar að fullu.

Samkvæmt tilkynningu í lögbirtingablaðinu námu lýstar kröfur í búið 379,2 milljónum króna. Upp í veðkröfur greiddust 3,2% af lýstum kröfum og upp í forgangskröfur greiddust 8,0% af lýstum kröfum. Ekkert fékkst greitt upp í almennar kröfur.