Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir það „afar óskynsamlegt“ að stórir orkukaupendur eigi í virkjunum fyrirtækisins eða taki þátt í að fjármagna virkjanir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegu viðtali við Hörð í Viðskiptablaðinu í dag. Upp á síðkastið hafa hugmyndir í þá veru verið ræddar á ýmsum stigum, meðal annars er varðar nýtingu jarðvarmaorku á Norðurlandi með þátttöku Alcoa. Sp. blm. Er það fýsilegt að þínu mati að fá einkaaðila að fjármögnun virkjanaframkvæmda hér á landi?

"Það er fyrst og síðast pólitísk ákvörðun hvernig þessum málum er háttað. Það er fyrir hendi mikill áhugi bæði erlendis og hér innanlands, ekki síst hjá lífeyrissjóðunum, að koma að eignarhaldi á virkjununum. Ástæðan er sú að þetta er áhugaverður staður til þess fjárfesta í þessum iðnaði og markaðsaðstæður er þannig að tækifærin eiga frekar eftir að aukast en hitt. En það er viðkvæmt fyrir þjóðir almennt hvernig aðkoma einkaaðila að auðlindanýtingu á að vera. Það er í sjálfu sér ekki mitt að hafa á þessu opinbera skoðun. Ég tel hins vegar að það sé afar óskynsamlegt að stórir kaupendur raforkunnar eigi í virkjunum. Það hamlar gegn eðlilegri verðmyndun og þeirri sýn að nýta auðlindirnar sem best. Við höfum það markmið að hámarka arðsemi af þessari sölu og það vinnur gegn því að kaupendur orkunnar eigi sjálfir í virkjunum sem framleiða orkuna sem þeir síðan kaupa."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .