Steinþór Pálsson, milligöngumaður ríkisins í viðræðum við eigendur skuldabréfa gamla Íbúðalánasjóðs, segir efni og framsetningu upphafsinnleggs Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í málinu virðast hafa dregið nokkuð úr samningsvilja margra eigenda.

Lífeyrissjóðirnir – sem eiga yfirgnæfandi meirihluta útistandandi Íbúðabréfa – litu margir á hugmynd ráðherra um slit ÍL-sjóðs með lagasetningu, næðust ekki samningar við eigendur bréfanna um uppgjör þeirra, sem hótun um eignaupptöku.

Steinþór staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að hann hafi fundið fyrir gremju vegna þessa hjá viðsemjendum sínum.

„Það virðist vera að einhverjir hafi firrst svolítið við þessa kynningu Bjarna. Hann hefur verið gagnrýndur víða í opinberri umræðu, meðal annars á Alþingi, og sumir þeirra sem ég hef verið í samskiptum við innan lífeyrissjóðanna hafa verið óhressir með það hvernig hann lagði þetta upp. Það hlýtur þó að vera eitthvað sem menn jafna sig á tiltölulega hratt, enda um stórt samfélagslegt mál að ræða sem taka þarf á af ábyrgð.“

Þarf að vinnast hratt á næstu vikum

Steinþór hefur átt í reglulegum samskiptum við lífeyrissjóðina og aðra Íbúðabréfaeigendur frá því í haust en enn sem komið er hefur aðeins verið um óformlegar þreifingar að ræða.

„Við höfum verið að skiptast á skeytum og svona einhver óformleg samtöl verið í gangi, en ég er vongóður um að þær leiði til einhvers meira. Þetta þarf að fara að vinnast hratt á allra næstu vikum. Það á nú ekki að þurfa að liggja mjög lengi yfir því að komast af stað í viðræður. Hvers þær kunna svo að leiða til er ekki gott að segja, en ég held að það væri ágætt að setja sér það markmið að láta á þessar viðræður reyna á nokkrum vikum og sjá hvað kemur út úr því.“

Nánar er rætt við Steinþór í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 12. janúar.