*

laugardagur, 16. nóvember 2019
Innlent 29. september 2019 11:32

Afboðaði á Charge vegna drónaárasa

Um 140 erlendir gestir koma gagngert til Íslands á ráðstefnuna Charge Energy Branding sem haldin verður í Hörpu nk. mánudag og þriðjudag.

Ritstjórn
Friðrik Larsen er framkvæmdastjóri Brandr sem stendur fyrir ráðstefnunni Charge Energy Branding.
Haraldur Guðjónsson

Það hefur ekki allt gengið að óskum í undirbúningnum að sögn Friðriks Larsen, framkvæmdastjóra Brandr sem heldur ráðstefnuna í fjórða skipti, en hátt í 50 íslenskir og erlendir fyrirlesarar munu flytja þar erindi, m.a. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. „Einn af aðalfyrirlesurunum á ráðstefnunni Peter Terium varð að afboða vegna drónaárásanna á olíuhreinsistöðvar í Saudi-Arabíu en hann er einn helstu sérfræðingunum á sviði orkumála þar. Við vorum einnig að vinna í að fá rafmagnsflugvél til landsins. Málið var í höfn og flugvélin svo gott sem á leið til Íslands en þegar samskonar flugvél hrapaði og brotlendi í stöðuvatni í Noregi þá var ákveðið að fara sér hægt og bíða með vélina. Engin slys urðu á fólki sem betur fer og í raun koma í ljós að það er í lagi að svona vélar brotlendi í vatni án þess að allt brenni yfir,” segir Friðrik.

Hann bætir þó við að fjöldi góðra fyrirlesarar verði með erindi á ráðstefnunni. ,,Það verður tekið á fjölmörgum hlutum sem snúa að orku m.a. orkumál á næsta áratugi, nýsköpun og tækni, sem mun fylgja henni, og orkuskipti í samgöngum á Íslandi. Okkur finnst mjög brýnt að halda umræðu um orkuskipti á lofti og það á mannamáli því ég held að fæstir viti hvað átt er við þegar talað er um orkuskipti. Því er vel við hæfi að ræða þetta á orkuráðstefnu sem fjallar meira og minna um samskipti,” segir dr. Friðrik

,,Farið verður yfir nýútgefna skýrslu um hvaða aðgerðir þarf að fara út í til að ná loftslagsmarkmiðum en Ísland þykir vera til fyrirmyndar í þeim efnum. Einnig verður farið yfir hvaða skref á að taka áfram hér á landi til að efla enn frekar þennan mikilvæga málefnaflokk. Þá verða einnig umræður um tengsl orku og ferðamennsku sem er mjög áhugavert. Fjallað verður einnig um hvernig mannauðsmál móta vörumerki og hvernig fólk upplifir vörumerki og rætt um samskipti og tjáskipti í tengslum við nýsköpum til að nýjungum sé tekið rétt,” segir Friðrik ennfremur.

Meðal fyrirlesara á Charge Energy Branding er Esa Muukka, forstjóri Nivos, orkuveitu Mäntsälän í Finnlandi. Friðrik segir að Nivos notfæri sér hitann sem gagnaver myndar sem hitaveitu fyrir borgina. Með því að nota sér afgangshitann sem annars færi til spillis hefur þeim tekist að lækka húshitunarkostnað um 40%.