Áætlaðar afborganir annarra en ríkissjóðs og Seðlabankans nema 700 milljörðum króna á næstu fimm árum, þ.e. fram til ársins 2018. Seðlabankinn segir í riti sínu Fjármálastöðugleik að verði undirliggjandi viðskiptaafgangur næstu ára svipaður og spáð er á þessu ári um 2,6% af vergri landsframleiðslu megi gera ráð fyrir að hann verði um 315 milljarðar króna á tímabilinu, þ.e. á árunum 2013 til 2018. Til að brúa um 385 milljarða króna mun á áætluðum viðskiptajöfnuði og samningsbundnum afborgunum þarf blöndu af auknum viðskiptaafgangi, innstreymi fjármagns, endurfjármögnun og lánalengingu, að mati Seðlabankans.

Í riti Seðlabankans segir um aðgengi að erlendum lánum:

„Óvissa með aðgengi innlendra aðila að erlendum lánsfjármörkuðum á viðráðanlegum kjörum hefur aukist á sl. mánuðum vegna hækkandi áhættuálags á mörkuðum sem fjallað var um hér að framan. Innlendir aðilar eru í einhverjum tilvikum háðir því að aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum opnist á viðráðanlegum kjörum eða núverandi lánveitendur lengi í fjármögnun þeirra, eigi þeir að geta staðið í skilum á næstu árum án þessa að setja verulegan þrýsting á gengi krónunnar.“