Nýi Skoda smájeppinn Yeti fékk fimm stjörnur í árekstraprófi Euro NCAP. Það er þrátt fyrir auknar kröfur í árekstrarprófinu sem teknar voru upp á þessu ári með svokölluðu „whiplash test”. Er þetta einn besti árangur í árekstarprófi sem ökutæki hefur náð frá upphafi samkvæmt frétt Euro NCAP.

„Whiplash” prófið tekur sérstakt tillit til öryggis og stöðu sæta með hliðsjón af vernd gegn háls- og mænuskaða við aftanákeyrslu. Dr. Eckhard Scholz hjá Škoda Auto BOD, sem ber ábyrgð á hönnun bílsins, segir mikið hafa verið lagt upp úr öryggismálum Yeti allt frá upphafi. Það varði alla hluti, allt frá styrkleika efna sem notuð eru við smíðina til þess hvernig staða sætanna þurfi að vera til að tryggja sem mest öryggi. „Til að tryggja mesta hugsanlega öryggi þurfa allir þættir að smella saman.”

Í Yeti eru allt að níu loftpúðar, þar á meðal fyrir hné. Þá er notað hástyrkleika stál í bílinn til að tryggja öryggi þeirra sem eru inni í bílnum. Samkvæmt niðurstöðu Euro NCAP nýtur ökumaður Yeti 92% öryggis. Til samanburðar er öryggi ökumanns í Hyundai i20, sem einnig fékk 5 stjörnur, metið 88% og 79% í Subaru Legacy.

Fyrstu Skoda Yeti jepparnir komu af færibandinu Škoda Auto's verksmiðjunnar í Kvasiny í Tékklandi 12. maí sl. Mjög miklar prófanir höfðu áður farið fram á bílnum við misjafnar aðstæður í Noregi.

Hægt verður að fá bílinn með ýmsum vélagerðum. Auk fjórhjóladrifs verður einnig hægt að fá bílinn eingöngu með framhjóladrifi. Ekki er ljóst hvenær umboðsaðilinn Hekla mun geta boðið Yeti til sölu hér á landi, en trúlega ræður þróun gengis krónunnar þar mestu um.