*

þriðjudagur, 28. september 2021
Fólk 5. september 2021 19:01

Afdrifarík ábending frá kennara

„Atvinnulífið í dag krefst þess að fólk sé stöðugt að auka færni sína og þekkingu,“ segir Helgi Héðinsson, forstöðumaður Opna háskólans.

Ritstjórn
Helgi Héðinsson
Aðsend mynd

Helgi Héðinsson hefur hafið störf sem forstöðumaður Opna háskólans í HR. Helgi hefur undanfarin fimm ár starfað sem mannauðssérfræðingur og sálfræðingur hjá Lífi og sál, þar sem hann sá um fræðslu og þjálfun fyrir stjórnendur og fólk á vinnumarkaðnum. Hann segir að hjá Opna háskólanum, sem býður stjórnendum og sérfræðingum upp á sí- og endurmenntun, hafi hann tækifæri til að koma að þróun og miðlun fræðslu fyrir mun breiðari hóp fólks og kveðst einnig spenntur fyrir því að spreyta sig á stjórnandahlutverkinu.

„Atvinnulífið í dag krefst þess að fólk sé stöðugt að auka færni sína og þekkingu. Við reynum að lesa í þróun starfa á vinnumarkaðnum til að geta boðið upp á menntun og þjálfun sem svarar kröfum vinnumarkaðarins um nýjustu þekkingu hverju sinni. Við erum jafnframt í auknum mæli að þróa stafrænar og gagnvirkar fræðslulausnir og bjóða fyrirtækjum og stofnunum sérsniðnar námslínur,“ segir Helgi.

„Við viljum bjóða upp á fyrsta flokks fræðslu sem við höfum trú á að auki samkeppnishæfni fólks og ekki síður að efnið sé byggt á rannsóknum. Það gefur okkur því ákveðið forskot að vera í nánu samstarfi við akademískar deildir HR.“

Helgi hefur á síðustu árum veitt íþróttasálfræðiráðgjöf til íþróttafólks og íþróttaliða. Hann segir að sú reynsla muni koma vel að notum í starfinu hjá Opna háskólanum.

„Sem íþróttasálfræðingur er ég að miðla þekkingu til íþróttafólks; hjálpa því að móta uppbyggileg viðhorf, kenna færni í að halda einbeitingu á ögurstundu, takast á við mótlæti og aðstoða það að yfirstíga sálrænar hindranir og komast lengra. Ég tek þessa þekkingu mína og reynslu alveg klárlega inn í starf mitt hjá Opna háskólanum, þar sem við erum á sambærilegan hátt að hjálpa fólki á vinnumarkaði að auka þekkingu og færni til að yfirstíga hindranir og vaxa þannig í starfi og sem einstaklingar.“

Helgi er stoltur Húsvíkingur og bjó fyrir norðan þangað til hann fór í framhaldsnám í sálfræði við Háskóla Íslands. Spurður hvort hann hafi alltaf ætlað að stunda nám í sálfræði segir hann svo ekki vera.

„Ég vissi ekkert hvert leið mín átti að liggja. Einn daginn sagði einn kennara minna í Framhaldsskólanum á Húsavík, maður sem var ekki á besta stað í lífinu og mætti stundum á tásunum í skólann, að ég gæti orðið góður sálfræðingur. Þá varð þessi hugmynd til.“

Helgi er giftur Sunnu Stefánsdóttur, samskipta- og kynningarfulltrúa Garðabæjar, og saman eiga þau þrjú börn. Helgi reynir að hreyfa sig þegar tími gefst utan vinnu og fjölskyldulífs og segir það afar gott að stemma stigu við krefjandi vinnu. Auk þess að hlaupa og hjóla er hann forfallinn golfari.

Nánar er rætt við Helga í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.