Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, þar einkum Kópavogur, Hafnarfjarðarbær og Reykjavíkurborg, hafa farið illa út úr samningum sem kaupendur lóða gerðu á árunum fyrir hrun. Samkvæmt samningunum gátu kaupendur skilað inn lóðunum innan tveggja ára frá því að kaupin voru frágengin og fengið kaupverðið greitt til baka, auk verðbóta. Þegar þrengja tók að í efnhagslífinu skiluðu margir inn lóðum sínum á grundvelli þessa samningsákvæðis sem leiddi til þess að sveitarfélögin þurftu að greiða út mikið fé, á versta tíma. Samtals er um að ræða á milli 30 og 40 milljarða króna. Hjá Kópavogsbæ fóru lóðirnar að safnast upp á árinu 2008 en bærinn hefur þurft að taka við lóðum og greiða út 15,6 milljarða króna, nettó. Allur meginþunginn í þessum skilum var á árinu 2008, eða 14,8 milljarðar. Glaðheimasvæðið er samtals um sex milljarðar af fyrrnefndri upphæð. Þróunin hefur þó verið að snúast við hægt og rólega í Kópavogi. Á árinu 2011 var um miðjan apríl búið að úthluta 12 lóðum en taka við fjórum.

Engu verið svarað

Sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki svarað því hvers vegna ákvæði var í samningum um að kaupendur gætu fengið kaupverðið verðtryggt til baka innan tveggja ára ef þeir kysu svo. Það er ljóst að skattgreiðendur bera af þessu mikinn kostnað. Ávöxtunin á fénu sem áður hafði verið greitt fyrir lóðirnar jafnast á við hefðbundna verðtryggða vexti á innlánsreikningum á þeim tíma er lóðunum var skilað inn. Á endanum; allt í boði íbúa í sveitarfélögunum.

Lóðaverð var hátt

Verð á byggingarétti á lóðum hækkaði skarplega á góðærisárunum og höfðu sveitarfélögin tímabundið miklar tekjur af hraðri uppbyggingu á lóðum. Eftir hrun hefur þessi hraða uppbygging víða dregið dilk á eftir sér. Íbúar í nýjum hverfum hafa höfðað dómsmál, m.a. í Reykjavík, þar sem þeir telja borgina ekki hafa staðið við sitt hvað varðar uppbyggingu á þjónustu. Hátt lóðaverð skýrðist m.a. af því að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu létu lóðakaupendur standa undir nær öllum nýframkvæmdum í nýjum hverfum, svo sem uppbyggingu vega, undirganga, skóla og þess háttar. Þetta var gert til þess að flýta uppbyggingu. Þetta hafði vitaskuld mikil áhrif á fasteignaverð, þar sem grunnkostnaður, áður en hafist var handa við uppbyggingu á lóðunum, var mjög hár.

Reykjavíkurborg í dómsmálum

Hæstiréttur dæmdi fyrr í mánuðinum Reykjavíkurborg í hag í málum þar sem lóðakaupendur vildu skila inn lóðum. Héraðsdómur Reykjavíkur og samgönguráðuneytið höfðu áður komist að þeirri niðurstöðu að borgin þyrfti að taka við lóðunum og greiða verðbætur ofan á kaupverð. Um var að ræða mál þar sem þrjú fyrirtæki höfðu óskað eftir því að skila inn lóðum við Lambhagaveg í Úlfarsárdal. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu á fimmtudag að borgin mætti neita fyrirtækjunum um að skila lóðunum. Miklir hagsmunir voru í húfi fyrir borgina þar sem sex fyrirtæki höfðu óskað eftir því að fá að skila inn atvinnuhúsnæðislóðum.

Úttekt á stöðu sveitarfélaganna er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.