Endurskoðun á lögum og reglugerðum vegna kaupa á þjónustu erlendis frá og færsla á sölu áfengis í neðra þrep virðisaukaskatts er meðal þess sem er til skoðunar í næstu skrefum í átt að einfaldara virðisaukaskatts- og vörugjaldakerfi. Kemur þetta fram í frétt á vefsíðu fjármálaráðuneytisins.

Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði á árinu 2014 þriggja manna stýrihóp til að gera tillögur að einfaldara og skilvirkara virðisaukaskatts- og vörugjaldakerfi. Stýrihópnum er ætlað að starfa út kjörtímabilið og lauk fyrsta áfanga í endurskoðun kerfisins með lagabreytingum sem tóku gildi 1. janúar 2015.

Ferðaþjónustan skoðuð

Að fengnum tillögum frá stýrihópnum um framhald vinnunnar hefur fjármála- og efnahagsráðherra ákveðið að vinnu stýrihópsins út kjörtímabilið verði skipt upp í fimm verkþætti.

Í fyrsta lagi verður unnið að breytingum sem snerta ferðaþjónustugreinar. Í frétt ráðuneytisins segir að nauðsynlegt sé að ljúka vinnu sem snýr að þeim breytingum sem lögfestar voru í árslok 2014 og taka gildi í byrjun næsta árs, en þær sneru m.a. að fólksflutningum og aðgangi að baðstöðum. Starfshópurinn mun einnig skoða kosti og galla við virðisaukaskattskyldu af rekstri leigubifreiða og almenningssamgangna.

Í öðru lagi verður lagt mat á það út frá sjónarmiðum skatteftirlits hvort ástæða sé til að færa sölu á áfengi í neðra þrep virðisaukaskatts og hækka gjaldhlutfall áfengisgjalds á þann veg að útsöluverð verði óbreytt. Fjármála- og efnahagráðuneytið og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins ljúka greiningu um þetta mál fyrir mitt árið.

Virkni kerfisins lítil

Í þriðja lagi verður unnið að endurskoðun laga og reglugerða um kaup á vöru og þjónustu frá útlöndum en undir þetta fellur meðal annars netverslun.

Í fjórða lagi verða endurskoðaðar reglugerðir og auglýsingar sem varða fasteignaleigu og byggingarstarfsemi og skattverð í slíkri starfsemi.

Í fimmta lagi verður unnið að frekari greiningu á virkni virðisaukaskattkerfisins og nánari greining gerð á lykilþáttum kerfisins. Segir í fréttinni að brýnt sé að efla greiningu á helstu áhrifaþáttum virðisaukaskatts á grundvelli bestu fáanlegu upplýsinga á hverjum tíma enda skili skatturinn um þriðjungi af heildarskatttekjum ríkissjóðs. Markmiðið með slíkri greiningu sé að kortleggja með skýrari hætti virkni kerfisins sem sé lítil samanborið við aðrar þjóðir og veiki það sem tekjuöflunartæki. Slíkri greiningu er ætlað að vera grundvöllur undir tekjuáætlun ríkissjóðs og einnig mat á breytingum einstakra þátta kerfisins, auk þess að vera stuðningur fyrir skattframkvæmdina almennt, bæði varðandi álagningu, eftirlit og innheimtu.