Beinn þjóðhagslegur ábati af því að leggja niður Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og leyfa sölu áfengis í verslunum gæti numið 4-6 milljörðum króna á ári miðað við forsendur og útreikninga Viðskiptablaðsins. Um helmingur þessarar upphæðar er vegna þess tímasparnaðar sem hlýst af því fyrir neytendur að þurfa ekki að fara í sérstaka verslun til þess að kaupa áfengi.

Rekstrarkostnaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins er um 3 milljarðar króna á ári. Þessi upphæð myndi sparast ef fyrirtækið yrði lagt niður, en á móti kemur að aðrir smásalar myndu hafa kostnað af því að selja áfengi. Sú upphæð er þó að öllum líkindum mun lægri en sem nemur rekstrarkostnaði ÁTVR þar sem smá- salarnir gætu nýtt þau dreifi- og sölukerfi sem þegar eru til staðar. Hagar eru með um helmingshlutdeild á matvörumarkaði.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir að þar á bæ hafi kostnaðurinn við að selja áfengi í smásölu verið metinn gróflega. Kostnaðurinn felist aðallega í innréttingum og að uppfylla skilyrði sem sett yrðu, meðal annars varðandi aðgreiningu áfengis frá öðrum vöruflokkum. „Þetta eru ekki stórkostlegar upphæðir,“ segir hann. Ekki er um hundruð milljóna eða milljarða að ræða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .