„Ég býst við góðri mætingu, það eru um 170 manns búnir að boða komu sína á Facebook,“ segir Ingvar Smári Birgisson, formaður Heimdallar, um málfund sem félagið stendur fyrir og haldinn verður í Valhöll í kvöld.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, verður meðal framsögumanna en hann hyggst leggja fram frumvarp á komandi haustþingi um breytingar á áfengislögum og er hann talsmaður þess að áfengissala verði gerð frjálsari en nú þekkist hér á landi.

Annar framsögumaður verður Ögmundur Jónasson. „Ögmundur hefur í gegnum árin talað mikið gegn því að áfengi sé selt í búðum og hefur eflaust margt fram að færa í þessu,“ segir Ingvar Smári.

Þá mun Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og samfélagsrýnir, auk Ara Matthíassonar, stjórnarmanns SÁÁ, einnig taka til máls. Fundurinn verður haldinn í Valhöll að Háaleitisbraut 1 og hefst kl. 20.

Facebook-síða fundarins .