Áfengi og tóbak er meira en helmingi dýrara hér en innan aðildarríkja Evrópusambandsins. Sopinn og smókurinn er þó ekki dýrastur hér því Írar og Norðmenn greiða meira en við á skerinu.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka þar sem fjallað er um mun á verðlagi hér og á meginlandi Evrópu.

Fram kemur í samantekt greiningardeildarinnar að þrátt fyrir gengisfall krónunnar á árunum 2008-2009 þá er Ísland áttunda dýrasta land Evrópu sé litið til helstu útgjaldaliða heimila og rúmlega 14% dýrara en meðallandið í Evrópusambandinu út frá reiknuðum verðlagsmuni milli landa (e. Price level index). Ef aðeins er litið á mat og drykk er Ísland 10. dýrasta landið í Evrópu en verð á matar- og drykkjarvöru hér er um 14% dýrara en í meðallandi Evrópusambandsins.

Sviss trónir á toppnum en verðið þar er heilt yfir um 62% hærra þar en í Evrópusambandinu. Dýrasta land Evrópusambandsríkið er Danmörk en þar er verðlag 42% hærra en í meðallandi sambandsins.