Í kjörbúðinni í Þrastarlundi, þar sem jafnframt er veitingastaður, er hægt að kaupa áfengi til að fara með út í trássi við áfengislög. Þetta fullyrðir blaðamaður Fréttablaðsins sem mætti á staðinn á laugardag og keypti ásamt öðru áfenga vöru og labbaði með hana út án athugasemda.

Sverrir Eiríksson eigandi Þrastarlundar segir að ekki séu brotin lög á veitingastaðnum þrátt fyrir að bjór og léttvíni er raðað í hillur kjörbúðarinnar ásamt öðrum drykkjarvörum og ostum. „Þetta er svona á nánast öllu Suðurlandinu,“ segir Sverrir sem selur allar helstu nauðsynjar enda þjónustar hann umtalsverða sumarhúsabyggð allt í kring.

„Ef þú ferð í þjóðgarðinn á Þingvöllum þá sérðu sama fyrirkomulag. Einnig er þetta fyrirkomulag haft á Geysi í Haukadal og víðar. Á veitingastöðum með vínveitingaleyfi sérðu áfengi í kælum út um allar trissur. Þetta er bara hluti af veitingastaðnum.“