Áfengisfrumvarpið var tekið fyrir á fundi allsherjar- og menntamálanefndar á Alþingi nú í morgun þar sem til stóð að greiða atkvæði um hvort málið færi út úr nefnd og í 2. umræðu á þinginu. Formaður nefndarinnar ákvað hins vegar að fresta atkvæðagreiðslunni þar sem Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingar, lagði fram nýjar upplýsingar í málinu sem hann vildi að nefndarmenn kynntu sér að undangenginni atkvæðagreiðslu.

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar
Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, á sæti í nefndinni, en hann sagði í samtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku að hann vildi að málið yrði afgreitt út úr nefndinni. „En ég er lýðræðissinni og er í allsherjar- og menntamálanefnd og vil að þetta verði afgreitt úr nefndinni," var haft eftir Páli. Hann lýsti því hins vegar yfir á fundinum í morgun að hann myndi sitja hjá í atkvæðagreiðslunni.

„Ég set mig ekki upp á móti því að frumvarpið fari áfram út úr nefndinni, en ég hef ákveðið að sitja hjá. Það eru skiptar skoðanir innan okkar þingflokks um málið og þetta var ákveðin lending,“ segir Páll Valur í samtali við Viðskiptablaðið.

„Hefði hugsanlega mátt skilja mig þannig“

Aðspurður hvort ekki hefði mátt skilja hann sem svo í fyrra samtali við Viðskiptablaðið að hann myndi greiða atkvæði með frumvarpinu segir Páll Valur: „Það hefði hugsanlega mátt skilja mig þannig, en það var ekki það sem ég átti við. Ég er orðinn svo ruglaður í þessu máli vegna þess að þetta er bara ekki mitt mál. Ég er búinn að hlusta á allar röksemdir gegn þessu og sumar með þessu og ég er bara á móti þessu. En ég set mig ekki á móti því að þetta verði tekið út úr nefnd þannig að þetta er ekki á mína ábyrgð og þá bara sit ég hjá. Það er mín afstaða og kannski málamiðlun innan okkar flokks.“

Páll Valur segir að þetta sé ekki hans mál. „Þetta er stjórnarfrumvarp. Þetta er lagt fram af stjórnarþingmanni og þetta er mál stjórnarinnar. Ég er alfarið á móti þessu, mér finnst þetta bara - ég ætla ekki einu sinni að segja það - en ég set mig ekki á móti því að þetta verði tekið í aðra umræðu, bara svo það sé á hreinu.“

Spurður hvort það jafngildi ekki að vera á móti málinu að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni segir hann: „Jú, þegar að atkvæðin standa svona eins og í morgun. En ef nefndin er rétt skipuð fer þetta ekki úr nefndinni, þrátt fyrir að ég sitji hjá eða greiði atkvæði með þessu.“

Þingflokksfundur ákvað atkvæðið

Þeir sem mættir voru á fund nefndarinnar í morgun og hafa lýst sig fylgjandi frumvarpinu eru Vilhjálmur Árnason, Unnur Brá Konráðsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson. Aðrir nefndarmeðlimir sem mættir voru á fundinn og hafa lýst sig andsnúna frumvarpinu eru Líneik Anna Sævarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Guðbjartur Hannesson og Jóhanna María Sigmundsdóttir.

Ekki voru hins vegar allir aðalmenn mættir á nefndarfund í morgun, en varamaðurinn Willum Þór Þórsson tók sæti á fundinum í stað Elsu Láru Arnardóttur frá Framsóknarflokki sem hefur lýst sig andsnúna frumvarpinu. Willum er meðflutningsmaður frumvarpsins. Má því telja líklegt að frumvarpið hefði hlotið samþykki hefði það farið í atkvæðagreiðslu nú í morgun og Páll Valur greitt því atkvæði sitt með fimm atkvæðum gegn fjórum.

Aðspurður hvort hann hafi breytt afstöðu sinni þar sem útlit var fyrir að málið kæmist áfram úr nefndinni segir Páll Valur svo ekki vera. „Alls ekki. Við ræddum þetta á þingflokksfundi í gær og þetta er bara niðurstaða sem við ákváðum; að ég sæti bara hjá.“