Vilhjálmur Árnason, flutningsmaður frumvarps um afnám einkasölu ríkisins á áfengi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að samkomulag um þinglok geri ekki ráð fyrir afgreiðslu frumvarpsins. Samkvæmt samkomulaginu er stefnt að því að þinglok verði á föstudag.

„Málþóf hefur orðið til þess að mun færri þingmannamál hafa fengið afgreiðslu en áður, sama úr hvaða flokk þau koma,“ segir Vilhjálmur. Í hópi þeirra frumvarpa sem hafi verið skorin úr halanum sé áfengisfrumvarpið.

Mætti harðri andstöðu

Frumvarpið var afgreitt úr allsherjar- og menntamálanefnd í lok febrúar síðastliðins og beið þess að ganga til annarar umræðu, og í kjölfarið til atkvæðagreiðslu. Sambærileg frumvörp hafa verið lögð fram á undanförnum árum, en ekkert hefur verið tekið til atkvæðagreiðslu. Viðskiptablaðið kannaði afstöðu 53 þingmanna í nóvember á síðasta ári til frumvarpsins, en nokkuð skýrar línur voru um frumvarpið eftir flokkum.

Enginn þingmaður Samfylkingar studdi til að mynda frumvarpið, og Árni Páll Árnason, formaður flokksins, lýsti því meðal annars yfir að Sjálfstæðisflokkur notaði frumvarpið sem dulargervi til að þykjast frjálslyndur. Guðbjartur Hannesson sagði óæskilegt að hægt væri að græða á sölu áfengis og meiri hluti velferðarnefndar lagði fram mjög harðorða umsögn gegn frumvarpinu. Nefndin kallaði meðal annars eftir áliti Jafnréttisstofu, Kvenréttindafélags Íslands, Kvenfélagasambands Íslands, Femínistafélags Íslands, Samtökum um kvennaathvarf og Stígamóta. „Aukið aðgengi leiðir til aukinnar neyslu og leiðir meðal annars til aukins ofbeldis, þar með heimilisofbeldis," sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður nefndarinnar í samtali við Viðskiptablaðið.

Meiri hluti efnahagsnefndar sagði aftur á móti að ríkið ætti ekki að reka verslanir.

Vildi frumvarpið í þjóðaratkvæði

Þá sagði Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, að sér hugnaðist illa útfærsla frumvarpsins og að neikvæð umræða sem flokkurinn fékk vegna afstöðu þingmanna hafi ekki verið verðskulduð. „Við erum frjálslyndur flokkur," sagði Guðmundur. Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, vildi að frumvarpið yrði afgreitt úr nefnd og færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann sat hins vegar hjá þegar atkvæði voru greidd um afgreiðslu frumvarpsins úr nefnd.

Meðal hagsmunasamtaka sem skiluðu inn umsögn voru skosku viskísamtökin, sem hvöttu til þess að frumvarpið yrði lögfest, en gerðu athugasemdir við útfærslu þess. Þá var viðhorf til frumvarpsins jákvætt meðal sérverslana um osta og sælkeravörur sem Viðskiptablaðið ræddi við.

Vilhjálmur Árnason segir að þó að frumvarpið hafi ekki komist til atkvæðagreiðslu nú, sé hann staðráðinn í að leggja það fram að nýju. Aðspurður segist hann vonsvikinn að málið hafi endað með þessum hætti.