„Það er búið að afgreiða þetta út úr nefndinni og núna er þetta komið til þinglegrar meðferðar. Þetta er mikill sigur,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Viðskiptablaðið. Áfengisfrumvarp Vilhjálms var afgreitt úr allsherjar- og menntamálanefnd rétt í þessu. Fer frumvarpið nú til annarrar umræðu á Alþingi.

Báðir þingmenn sjálfstæðisflokksins, Unnur Brá Konráðsdóttir og Vilhjálmur Árnason, og annar þingmaður framsóknarflokks, Willum Þór Þórsson, greiddu atkvæði með afgreiðslu frumvarpsins í nefndinni, en Willum sat fundinn í stað Elsu Láru Arnardóttur. Þá greiddu fulltrúar Pírata og Bjartrar framtíðar atkvæði með afgreiðslu frumvarpsins, þau Halldóra Mogensen og Páll Valur Björnsson.