Áfengisgjöld hafa hækkað um og yfir 100% frá hruni, sé boðuð hækkun um áramótin tekin með í reikninginn. Þetta kemur fram í úttekt Félags atvinnurekenda á áfengisgjöldum.

Þar segir meðal annars: „Á sama tíma er útlit fyrir að hækkun vísitölu neysluverðs sé um 39%. Áfengisgjöldin hafa því hækkað gríðarlega umfram almennt verðlag í landinu.“

Til að mynda þá var áfengisgjald í september 2008 var áfengisgjald á sentilítra hreins vínanda í léttvíni 52,8 krónur, en samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 verður það 106,8 krónur og hefur því hækkað um 102%. „Áfengisgjaldið á hvern sentilítra vínanda í bjór var haustið 2008 58,7 krónur en gæti um áramót orðið 117,3 krónur eða 100% hærra,“ segir einnig í grein FA.

Þar er einnig rifjað upp umfjöllun Blaðsins frá árinu 2007, þegar þverpólitísk samstaða var um að skattlagning á áfengi var of há. Þar sagði Katrín Jakobsdóttir: „Ég held að neyslustýringin sé ekki að virka, og held að gjöld á áfengi hafi ekki áhrif á það hvernig vínmenning þróast.”