Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að öll löggjöf er snertir áfengi verði tekin til endurskoðunar með það fyrir sjónum að auka frjálsræði í málaflokknum. Álitið er undirritað af Guðmundi Steingrímssyni, Bjartri framtíð, Unni Brá Konráðsdóttur, Vilhjálmi Bjarnasyni og Pétri Blöndal, Sjálfstæðisflokk og Willum Þór Þórssyni, Framsóknarflokk.

Í áliti meirihlutans er lagt til að aðkoma ríkisins að sölu áfengis verði afnumin. Þá verði banni á auglýsingum á áfengi aflétt í núverandi mynd því „ef salan yrði gerð frjáls yrði að vera hægt að kynna vöruna fyrir neytendum á einhvern hátt. Það er álit meiri hluta að kominn sé tími til að setja kynningu á áfengi í einhvern skynsamlegan ramma," segir í álitinu.

Ríkið reki ekki verslanir

Í áliti meirihlutans er bent á atriði í málflutningi andstæðinga áfengisfrumvarpsins sem meirihlutinn telur bera vott um tvískinnung og ósamræmi í gagnrýni. Segir til að mynda:

Nokkur umræða um smásöluumhverfið á Íslandi skapaðist í nefndinni samhliða umfjöllun um frumvarpið. Þeirra sjónarmiða gætti mjög á meðal álitsgjafa, að ef sala á áfengi yrði gerð frjáls myndi söluumhverfið leiða til verri þjónustu við áfengiskaupendur frá því sem nú er. Slík umræða afhjúpar athyglisverða umhyggju fyrir þörfum áfengiskaupenda, en einnig yfirgripsmikið vantraust margra á samkeppnisumhverfinu í smásölu hér á landi. Í umfjöllun um málið hafa verið færð fyrir því rök að stórir aðilar í smásölu muni við þessar breytingar verða enn stærri og að úrval áfengis verði fábrotnara í búðum frá því sem nú er í Vínbúðum ríkisins. Út frá þessari umræðu um samkeppnisumhverfið í smásölu á Íslandi má spyrja ákveðinna áleitinna spurninga. Ljóst er að áfengi telst seint til mikilvægustu neysluvara. Matur er til að mynda flestum nauðsynlegri. Ef markaðsbrestirnir í smásöluumhverfinu eru svo miklir að ríkisverslun telst jafnvel betri en frjáls verslun, er þá ekki nær að setja fremur undir ríkishattinn þær vörur sem nauðsynlegastar eru, en láta aðrar, eins og áfengi, liggja milli hluta? Er með öðrum orðum tilefni til þess að íhuga yfirgripsmeiri ríkisverslun á fleiri sviðum en nú, vegna markaðsbrestanna í smásöluumhverfinu?

Í álitinu er þó tekið fram að meirihlutinn leggist gegn því að ríkið stundi verslunarrekstur.

Verðhækkun samræmdist lýðheilsumarkmiðum

Þá veltir meirihlutinn því fyrir sér hvort þeir sem gagnrýni áfengisfrumvarpið því þeir teldu þjónustu versna, verð hækka og láti sig varða lýðheilsu á sama tíma séu sjálfum sér samkvæmir.

Því hefur einnig verið haldið fram fyrir nefndinni að verð muni hækka ef salan verður gefin frjáls vegna bresta í smásöluumhverfinu hér á landi sem minnst var á í upphafi umsagnar þessarar. Meiri hlutinn veltir í því samhengi upp því sjónarmiði hvort neysla mundi ekki minnka samhliða hækkandi verði og væri slík hækkun þá ekki af hinu góða út frá lýðheilsumarkmiðum?