Félag atvinnurekenda hefur sent Jóni Gunnarssyni innanríkisráðherra erindi og hvatt hann til að ráðast í heildurendurskoðun á áfengislöggjöfinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá FA.

FA segir í erindi sínu til ráðherra að áfengislögin séu að verulegu leyti orðin marklaus vegna þróunar á samskiptatækni og verslunarháttum og að bann áfengislaga við því að aðrir en ríkið selji áfengi í smásölu sé orðið götótt.

Félagið bendir á að margar leiðir séu farnar framhjá einkarétti ríkisins á smásölu áfengis innanlands. Lengi vel hafi neytendur getað keypt áfengi af netverslunum í EES ríkjum og upp á síðkastið hafi svo netverslanir með áfengi reknar af innlendum aðilum orðið til. Auk þess sé áfengi selt beint frá smærri brugghúsum þótt lagaheimild til þess skorti og er jafnvel hægt að taka með sér óopnaðar bjórflöskur frá þjóðvegaveitingastöðum.

Sjá einnig: Vilja lögbann á netverslanir með vín

Innlendir fjölmiðlar tapa

FA bendir á að áfengisauglýsingar séu einungis bannaðar í orði kveðnu, þar sem allir viti að bannið heldur ekki í raun. Áfengisauglýsingar séu fyrir augum íslenskra neytenda daglega, í erlendum blöðum og tímaritum sem seld eru hér á landi, á íþróttaviðburðum sem sjónvarpað er beint hér á landi og á alþjóðlegum samfélagsmiðlum og vefsíðum.

Í erindi FA segir að tveir hópar fyrirtækja tapi mest á auglýsingabanni áfengislaganna. Það séu annars vegar innlendir áfengisframleiðendur, sem ekki geta auglýst vörurnar sínar í innlendum miðlum nema þá með óbeinum hætti með því að auglýsa sömu vörumerki án áfengisinnihalds eða innan við 2,25% styrkleika. Hins vegar séu það innlendir fjölmiðlar sem njóta ekki tekna af áfengisauglýsingum innlendra aðila á áfengismarkaði. Þeir síðarnefndu skipta fremur við hina alþjóðlegu samfélagsmiðla, sem njóta þá teknanna.