Áfengisneysla byggð á áfengissölu hérlendis var 2.015 þúsund lítrar af áfengi árið 2016 samanborið við 1.324 lítra árið 2000 og 716 þúsund lítra árið 1980. Mælt í hreininum vínanda á íbúða 15 ára og eldri var neyslan 7,5 lítrar árið 2016, 6,14 lítrar 2000 og 4,33 lítrar 1980 Áfengisneysla hefur því aukist um 73% milli áranna 1980 og 2016 að því er kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.

Áfengisneysla fór hægt vaxandi á árunum 1980 til 1988 en jókst talsvert árið 1989 þegar sala bjórs var leyfð hér á landi. Dró úr áfengisneyslunni á ný en upp úr 1994 fór hún stigvaxandi fram til ársins 2007 þegar hún varð hvað mest. Í kjölfarið minnkaði áfengisneysla aftur í nokkur ár en jókst á ný og var mest árið 2015, 7,66 alkóhóllítrar á íbúa 15 ára og eldri. Ætla má að fjölgun ferðamanna til landsins á síðustu árum eigi sinn þátt í þeirri aukningu sem orðið hefur á sölu áfengis undanfarið.

Mikil breyting varð á áfengisneyslu í kjölfar þess að sala á bjór hófst. Árið 1988 var hlutur sterkra drykkja 77% og léttra vína 23% mælt í hreinum vínanda. Árið 1989 fór hlutur sterkra drykkja niður í 52% og hlutur léttra vína í 14% en sala bjórs varð 34% af heildarsölu áfengis í alkóhóllítrum talið þó einungis hafi verið um 10 mánaða sölu að ræða.

Hlutur bjórs minnkaði lítillega næstu árin en jókst síðan jafnt og þétt og hefur verið um og yfir helmingur heildarsölu áfengis í alkóhóllítrum um langt skeið. Árið 2000 var bjór 49% seldra alkóhóllítra, létt vín 22% og sterk vín 29%. Síðustu árin hefur hlutur bjórs aukist enn frekar og var 57% áætlaðrar heildarsölu árið 2016. Á sama tíma hefur dregið verulega úr sölu sterkra drykkja og er hlutur þeirra nú tæplega 16%. Neysla léttra vína minnkaði einnig við tilkomu bjórsins en jókst síðan aftur og hafa létt vín verið 26–29% af áætlaðri heildarneyslu mælt í hreinum vínanda síðustu árin.

Dregið hefur úr áfengisneyslu í Danmörku, Færeyjum og á Grænlandi og einnig lítillega í Finnlandi frá árinu 2000 á sama tíma og hún hefur aukist á Álandseyjum, í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi Mestur er samdrátturinn á Grænlandi en aukningin mest á Íslandi á þessu tímabili.