Tæplega 71 milljóna króna rekstrarafgangur varð af rekstri Landsspítala-Háskólasjúkrahúss á síðasta ári að teknu tilliti til 33,145 milljarða króna rekstrarframlags frá ríkinu. Rekstrarhalli fyrir ríkisframlag nam 33,074 milljörðum fyrir ríkisframlagið. Þetta kemur fram í ársreikningi sjúkrahússins sem var gefið út fyrir ársfund þess í gær. Árið 2009 var ríflega 1,3 milljarða tap af rekstrinum.

Af þessu er ljóst að hagræðingaraðgerðir í rekstrinum hafa náð tilskyldum árangri en eins og fram kom í viðtali Viðskiptablaðsins við Björn Zoëga, forstjóra LSH, í síðustu viku hefur spítalinn verið minnkaður um 18% á 18 mánuðum. Þannig hafa gjöld verið skorin niður um rúma 2,2 milljarða á árinu 2010, voru tæpir 36,5 milljarðar á árinu en rúmir 38,7 milljarðar á árinu 2009.

Hann sagði einnig að það sem af er þessu ári sé reksturinn innan þess ramma sem markaður hefur verið. Vert er að minnast á að Björn tók það fram að þjónusta spítalans og gæði hans hafi ekki verið skert svo neinu nemi.