Rekstrarniðurstaða Vestmannaeyjabæjar samkvæmt ársreikningi hans var jákvæð um 389 milljónir króna, en rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 197 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningi. Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 4.3 milljörðum króna samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 3,2 milljörðum króna.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2015 nam 6,3 milljörðum króna samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A og B hluta, en eigið fé A hluta var jákvætt um 4,7 milljarða króna. Eigið fé og skuldir samtals námu þá tæpum 11 milljörðum króna í lok árs 2015.

Álagningarhlutfall útsvars var 13,98% en lögbundið hámark þess er 14,52%. Álagningarhlutfall fasteignaskatts í A-flokki var 0,42% en lögbundið hámark þess er 0,5%, í B-flokki nam álagningarhlutfallið 1,32% sem er lögbundið hlutfall og í C-flokki var álagningarhlutfallið 1,55% en lögbundið hámark þess er 1,65% með álagi.