Afgangur af utanríkisviðskiptum virðist ekki hafa skilað sér í styrkingu krónunnar enn sem komið er. Þetta segir í umfjöllun Greiningar Glitnis.

Þar segir að tilgangur núverandi fyrirkomulags gjaldeyrisviðskipta sé að hagstæð vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd skapi að jafnaði framboð umfram eftirspurn gjaldeyrisviðskipta og að verð erlendra gjaldmiðla lækki þannig jafnt og þétt. Þetta virðist hins vegar ekki hafa gengið eftir enn sem komið er, segir í umfjölluninni.

Ennfremur segir:

,,Í vefriti fjármálaráðuneytisins í gær var fjallað um bráðabirgðatölur með vöruskipti desembermánaðar, en Hagstofan lætur ráðuneytinu þessar tölur í té. Þar kemur fram að innflutningur í mánuðinum nam 32,5 mö.kr. og minnkaði hann um 8 ma.kr. milli mánaða. Hagstofan hefur hins vegar ekki sett fram heildartölur fyrir útflutning í desembermánuði enn, og þar af leiðandi liggur bráðabirgðaniðurstaða vöruskiptajafnaðar ekki fyrir. Þó kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytis að útflutningur vöru jókst töluvert á milli mánaða í desember, en útflutningurinn nam 43,2 mö.kr. í nóvember. Samdrátturinn í innflutningi milli mánaða var helst í eldsneyti og súráli, en aukningin í útflutningi kom frá áli og sjávarafurðum."

Sjá nánar í Morgunkorni Glitnis.