Vöruskipti voru hagstæð um 1,1 milljarð króna í mars, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar . Er þar miðað við að verðmæti útflutnings hafi numið 45,5 milljörðum króna í mánuðinum en innflutnings 44,4 milljörðum króna. Ef þetta verður niðurstaðan þá hefur afgangur af vöruskiptum ekki verið lakari síðan í mars árið 2008 þegar halli á vöruskiptum nam rúmum 2,3 milljörðum króna.

Til samanburðar nam afgangur af vöruskiptum fjórum milljörðum króna í febrúar síðastliðnum en tæpum 9,3 milljörðum króna í mars í fyrra.

Það sem af er ári má gera ráð fyrir því að afgangur af vöruskiptum á fyrstu þremur mánuðum ársins verði tæpir 19,5 milljarðar króna, þ.e.a.s. gangi bráðabirgðatölur Hagstofunnar eftir. Svo lítill hefur afgangurinn ekki verið síðan á fyrsta ársfjórðungi árið 2012 þegar hann náði ekki 19 milljörðum króna. Það skýrist einkum af því að afgangur af vöruskiptum í janúar árið 2012 nam aðeins 774,4 milljónum króna.