Vöruskiptaafgangur á nýliðnu ári var um það bil 10% minni en árið á undan. Greining Íslandsbanka segir að ástæðan sé fyrst og fremst óhagstæð þróun viðskiptakjara, sér í lagi verðlækkun á helstu útflutningsafurðum landsins á milli ára. Hafi sú þróun vegið þyngra en hagstæð innbyrðis þróun í magni, þar sem vöruútflutningur jókst líklega nokkuð í magni mælt á meðan innflutningur dróst lítillega saman.

Samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofu var afgangur af vöruskiptum 4,8 milljarðar í desember síðastliðnum. Greining Íslandsbanka segir þetta í minna lagi miðað við mánuðina á undan. Bæði vöruútflutningur og –innflutningur hafi verið með minna móti. „Útflutningur var 43,6 milljarðar króna samkvæmt tölunum, og hefur hann ekki verið minni frá maí síðastliðnum. Skýringin liggur að stærstum hluta í óvenju rýrum útflutningi sjávarafurða, en annar útflutningur var einnig með minna móti. Engin ein skýring er á litlum vöruinnflutningi í mánuðinum, og virðist sem rekja megi hann til flestra helstu undirliða,“ segir í Morgunkorni Greiningar.

Afgangur af vöruskiptajöfnuði var 69,6 milljarðar króna á síðasta ári ef miðað er við bráðabirgðatölur fyrir desember. Árið 2012 var afgangurinn hins vegar 77,3 milljarðar króna og minnkaði hann því um 7,7 milljarða króna á milli ára.